Körfubolti

Darri: Allt annað að hafa Tyler á boltanum með 8 sekúndur eftir

Árni Jóhannsson skrifar
Darri hissa í leik kvöldsins.
Darri hissa í leik kvöldsins. vísir/bára

Darri Freyr Atlason þjálfari KR var ekki nógu sáttur við frákasta baráttu sinna manna þegar lið hans lá fyrir Val 84-85 í DHL höllinni fyrr í kvöld. Með sigrinum jafnaði Valur einvígið við KR 1-1 en leikið er í 8-liða úrslitum Dominos deildar karla.

„Sóknarfráköst. Það var ekki mikið meira en það“, sagði Darri þegar hann var spurður að því hvar leikurinn á móti Val tapaðist í kvöld. 

„Ég hef aldrei séð neinn taka 10 sóknarfráköst í fyrri hálfleik eins og Hjálmar gerði í kvöld. Vel gert hjá honum en við þurfum að standa okkur betur í að stíga út og hugsanlega þurfum við að breyta hverjir eru að dekka hvern.“

KR heldur áfram að gæta Jordan Rowland mjög vel en á móti kemur að aðrir Valsarar ná að stíga upp og setja stig á töfluna. Darri var spurður hvort hann þurfi að breyta einhverju varðandi þann hluta leiksins.

„Fimm á fimm vörnin okkar var frábær í kvöld. Þeir lifðu af í fyrri hálfleik út af sóknarfráköstunum og það er það sem við þurfum að breyta því á milli leikja. Þetta eru staðsetningar hjá leikmönnum og hverjir eru að dekka hvern. Við berum einnig hellings ábyrgð á þessu.“

Í lokin lýsti Darri yfir óánægju sinni með dómarana en honum fannst hans menn vera rændir tækifærinu að vinna leikinn undir lokin þegar KR reyndi að brjóta á Val en ekkert var dæmt.

„Mér fannst við samt eiga að fá tækifæri á að vinna leikinn hérna í lokin þegar Friðrik sleppir því að dæma villu sem er augljós hérna. Það er lykilatriði að dómararnir sjái að við séum að reyna að brjóta á þeim hérna. Það er búið að refsa liðum oft með því að dæma óíþróttamannslega villu í vetur og það þarf að vera eitthvað samræmi í þessu til að leyfa leiknum að halda áfram.  Það vita allir hvað er að fara að gerast og hvað við erum að reyna að gera. Það hefði verið allt annað að vera með Tyler á boltanum með átta sekúndur eftir á móti því að það séu tvær sekúndur eftir og þeir eiga vítaskot.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×