Fótbolti

20 dagar í EM: Síðasta þrennan á EM orðin þrettán ára gömul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa og  Fernando Torres fagna einu marka Villa í leiknum á móti Rússum á EM 2008.
David Villa og  Fernando Torres fagna einu marka Villa í leiknum á móti Rússum á EM 2008. EPA/GEORGI LICOVSKI

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Það er orðið mjög langt síðan að leikmaður náði að skora þrjú mörk í einum leik í úrslitakeppni EM.

Spánverjinn David Villa er sá síðasti sem náði að skora þrennu á EM en hana skoraði kappinn í riðlakeppninni á Evrópumótinu í Austurríki og Sviss sumarið 2008.

Þrenna Villa kom í 4-1 sigri Spánverja á Rússum 10. júní 2008 og því verða liðin þrettán ár og einn dagur betur þegar Evrópumótið verður sett í sumar.

Mörkin skoraði David Villa á 20., 44. og 75. mínútu leiksins en stoðsendingarnar á hann áttu þeir Fernando Torres, Andrés Iniesta og Cesc Fabregas en Villa kom spænska liðinu í 3-0 í þessum fyrsta leik liðsins á mótinu.

Spánverjar enduðu á því að vinna Evrópumeistaratitilinn en Villa missti af úrslitaleiknum vegna meiðsla meiðsla.

Alls hafa átta þrennur verið skoraðar í úrslitakeppni EM þar á Frakkinn Michel Platini tvær þeirra með þriggja daga keppni á EM í Frakklandi sumarið 1984.

Það voru skoraðar tvær þrennur á EM 2000 en þá voru liðin tólf ár síðan að Marco van Basten skoraði eftirminnilega þrennu fyrir hollenska landsliðið í 3-1 sigri á Englendingum í riðlakeppni EM í Vestur-Þýskalandi 1988.

Fyrstu þrennuna í sögu úrslitakeppni EM skoraði aftur á móti Vestur-Þjóðverjinn Dieter Müller í 4-2 sigri á Júgóslavíu í framlengdum undanúrslitaleik á EM 1976. Müller kom inn á sem varamaður á 79. mínútu og tryggði Vestur-Þjóðverjum framlengingu með því að jafna metin í 2-2 þremur mínútum síðar. Hann skoraði síðan tvívegis í framlengingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×