Fótbolti

18 dagar í EM: Tveir úrslitaleikir EM hafa unnist á „Gullmarki“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Trezeguet fagnar Gullmarki sínu á móti Ítalíu í úrslitaleik EM 2000.
David Trezeguet fagnar Gullmarki sínu á móti Ítalíu í úrslitaleik EM 2000. EPA/TOUSSAINT KLUITERS

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Það sem gerðist tvisvar getur aldrei gerst aftur á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Tveir úrslitaleikir Evrópumótsins hafa endað á því að leikmaður skoraði svokallað Gullmark og tryggði þjóð sinni með því Evrópumeistaratitilinn.

Mennirnir tveir sem hafa skorað slík mörk eru Þjóðverjinn Oliver Bierhoff og Frakkinn David Trezeguet. Báðir eiga þeir það sameiginlegt að hafa komið inn á sem varamenn í úrslitaleiknum.

Reglan um Gullmarkið var í gildi frá með EM 1996 til og með HM 2002. Báðir úrslitaleikir Evrópumótsins á þessu tímabili réðust því á slíku marki. Gullmark var mark sem endaði leikinn í framlengingu og var þetta því síðasta spyrna leiksins í umræddum leikjum.

Oliver Bierhoff tryggði Þýskalandi Evrópumeistaratitilinn í úrslitaleik EM í Englandi en úrslitaleikur á milli Þýskalands og Tékklands fór fram á Wembley.

Patrik Berger kom Tékkum í 1-0 úr vítaspyrnu á 59. mínútu en tíu mínútum síðar kom Bierhoff inn á sem varamaður. Bierhoff skoraði jöfnunarmarkið á 73. mínútu og sigurmark hans kom síðan á fimmtu mínútu í framlengingu.

Fjórum árum seinna voru Ítalir við það að tryggja sér Evrópumeistaratitilinn í úrslitaleiknum á móti Frökkum.

Úrslitaleikur Frakka og Ítala fór fram á De Kuip leikvanginum í Rotterdam og Marco Delvecchio kom Ítölum í 1-0 á 55. mínútu. Þannig var staðan þar til að varamaðurinn Sylvain Wiltord jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótatíma og tryggði Frökkum framlengingu.

Sylvain Wiltord hafði komið inn á sem varamaður þremur mínútum eftir að Ítalir komust yfir en sextán mínútum síðar var David Trezeguet skipt inn á völlinn.

Það var síðan Trezeguet sem tryggði Frökkum Evrópumeistaratitilinn á þrettándu mínútu framlengingarinnar með Gullmarki.

Eftir HM 2002 kom til sögunnar svokallað „Silfurmark“ en liðið sem fékk á sig mark fékk þá tækifæri til að jafna til enda hálfleiks framlengingarinnar. Reglan um þessi tvö mörk var síðan tekin út úr fótboltareglunum eftir EM 2004.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×