Innlent

Atburðarásinni í Rauðagerðismálinu lýst í ákæru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Morðið virðist hafa verið vel skipulagt.
Morðið virðist hafa verið vel skipulagt. Vísir/Vilhelm

Morðið á Armando Beqirai var skipulagt og fylgst var með ferðum hans kvöldið sem hann var myrtur, ef marka má ákæru héraðssaksóknara í Rauðagerðismálinu svokallaða.

Þar er dregin upp mynd af aðdraganda morðsins laugardagskvöldið 13. febrúar sem hófst með því að Murat Selivrada sýndi Claudiu Sofiu Coelho Carvalho tvær bifreiðar sem tilheyrðu Armando og var lagt við Rauðarárstíg 31.

Fékk Claudia, sem er unnusta Angjelin Serkaj, fyrirmæli um að fylgjast með þeim og senda skilaboð til Shpetim Qerimi í gegnum Messenger þegar hreyfing yrði á annrri hvorri bifreiðinni. Varð hún við þessu og sendi skilaboðin þegar Armando ók frá Rauðarárstíg.

Rétt fyrir miðnætti óku Shpetim og Angjelin að Rauðagerði.

„Þegar bifreið Armando var ekið að heimili hans að Rauðagerði 28 ók ákærði Shpetim í humátt á eftir honum, hleypti meððákærða Angjelin úr bifreiðinni við hús nr. 28 og ók svo áfram nokkrar húsalengdir þar sem hann snéri bifreiðinni við og beið þar til meðákærði Angjelin gaf honum merki um að sækja sig. Þá ók ákærði Shpetim austur Rauðagerði og tók meðákærða Angjelin upp í bifreiðina í Borgargerði.“

Í millitíðinni faldi Angjelin sig við bílskúrinn við Rauðagerði 28. Þegar Armando kom út eftir að hafa lagt bílnum skaut Angjelin hann níu sinnum í líkama og höfuð með 22. kalíbera Sig Sauer skammbyssu.

Armando lést af skotsárum sem hann hlaut á heila og brjóst.

Í kjölfarið hljóp Angjelin út Rauðagerði og var sóttur af Shpetim. 

„Þeir óku svo út úr bænum og í Varmahlíð í Skagafirði, með viðkomu í Kollafirði þar sem ákærði losaði sig við skammbyssuna með því að henda henni í sjóinn,“ segir í ákærunni.

Málið verður dómtekið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×