Erlent

Stefna á að leyfa öllum að bera skammbyssu án leyfis í Texas

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúi Texas með skammbyssu á mótmælafundi gegn lögum um byssueign í Austin árið 2015.
Íbúi Texas með skammbyssu á mótmælafundi gegn lögum um byssueign í Austin árið 2015. AP/ERic Gay

Ríkisþing Texas í Bandaríkjunum hefur samþykkt frumvarp um að leyfa öllum íbúum ríkisins, 21 árs og eldri, að bera skammbyssu, jafnvel þó viðkomandi hafi ekki gengist byssupróf og þá bakgrunnsskoðun sem því fylgir. Frumvarpið hefur verið sent til Greg Abbott, ríkisstjóra, sem hefur sagst ætla að skrifa undir það.

Samtök lögregluþjóna hafa lýst því yfir að frumvarpið ógni öryggi þeirra og almennings en þau mótmæli hafa fallið á dauf eyru ríkisþingmanna Repúblikanaflokksins, sem eru í meirihluta í báðum deildum.

„Það sem þetta frumvarp gerir er að endurvekja rétt sem íbúar Texas, eftir því sem ég best veit, hafa ekki notið frá 1871,“ hefur Houston Chronicle eftir þingmanninum Matt Shaefer. Þetta sagði hann skömmu áður en fulltrúadeildin samþykkti frumvarpið (82-62). Skömmu seinna gerði öldungadeildin það einnig (17-13).

Repúblikanar halda því fram að stjórnarskrá Bandaríkjanna veiti öllum Bandaríkjamönnum rétt til vopnaburðar. Texas er þegar með einhverja takmörkuðust vopnalöggjöf í Bandaríkjunum og þar er rúmlega 1,6 milljón manna með leyfi til að bera skammbyssu.

Þá er íbúum Texas þegar leyfilegt að eiga og ganga um með riffla án byssuleyfis.

Sambærileg lög um að fólk megi eiga og bera byssur án byssuleyfis, má finna í um tuttugu ríkjum Bandaríkjanna, samkvæmt Houston Chronicle. Texas verður þó lang stærsta ríkið þann 1. september en þá er búist við að lögin taki gildi.

Samtök fólks sem vilja umfangsmeiri löggjöf um skotvopn og takmörk á vopnaburði eru sömuleiðis andvíg frumvarpinu. Samkvæmt frétt Politico hafa andstæðingar frumvarpsins til að mynda vísað í nýlegar mannskæðar skotárásir í Texas.

Má þar nefna árásina í El Paso og árásina í Odessa-Midland frá 2019.

Demókratar hafa gagnrýnt Repúblikana harðlega vegna frumvarpsins og segja þá ætla sér að fjölga skotvopnum í höndum óþjálfaðra aðila, í stað þess að takast á við faraldur skotárása í ríkinu.

Frumvarpið mætti mikilli mótspyrnu í mars og var ekki útlit fyrir að það yrði samþykkt. Síðan þá hefur því verið breytt töluvert. Fyrrverandi fangar, menn sem hafa verið dæmdir fyrir heimilisofbeldi og fleiri mega ekki bera skammbyssur samkvæmt lögunum og hefur refsing við slíkum brotum verið þyngd.

Þá var einnig tekið út ákvæði um að lögregluþjónar gætu ekki afvopnað fólk, sem lögreglan sagði nauðsynlegt að hægt væri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×