Fótbolti

Guðlaugur Victor ætlar að verða leiðtogi hjá Schalke næstu tvö árin

Sindri Sverrisson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson með treyju Schalke, síns nýja félags.
Guðlaugur Victor Pálsson með treyju Schalke, síns nýja félags. schalke04.de

Þýska knattspyrnufélagið Schalke hefur staðfest komu Guðlaugs Victors Pálssonar, sem Vísir greindi frá í síðustu viku. Landsliðsmaðurinn skrifaði undir samning til tveggja ára við félagið.

Guðlaugur Victor kemur til móts við nýju liðsfélaga sína í Schalke þegar undirbúningstímabilið hefst í sumar. Hann hefur leikið með Darmstadt í tvö og hálft ár í þýsku 2. deildinni og mun áfram leika í sömu deild því Schalke féll úr efstu deild, eftir samfellda veru þar frá árinu 1988.

Schalke vann aðeins þrjá leiki í vetur og fékk 16 stig í 34 leikjum, en nú ætlar félagið að spyrna við fótum og koma Guðlaugs Victors er liður í því.

„Ég vil verða leiðtogi liðsins innan sem utan vallar. Við ætlum að endurreisa liðið algjörlega. Ég vil að reynsla mín verði lóð á þær vogarskálar og til að Schalke vinni eins marga leiki og hægt er,“ sagði Guðlaugur Victor við heimasíðu Schalke.

Guðlaugur Victor er uppalinn í Fjölni og Fylki en fór 16 ára gamall í unglingaakademíu Aarhus í Danmörku. Þaðan fór hann til enska stórliðsins Liverpool. Hann hefur svo leikið með Hibernian í Skotlandi, New York Red Bulls í Bandaríkjunum, NEC í Hollandi, Helsingborg í Svíþjóð, Esbjerg í Danmörku og Zürich í Sviss.

Guðlaugur Victor, sem á að baki 26 A-landsleiki, gaf ekki kost á sér í íslenska landsliðshópinn sem mætir Mexíkó, Póllandi og Færeyjum í vináttulandsleikjum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×