Josep Almudever Mateu fæddist í Marseille og hafði bæði franskt og spænskt ríkisfang. Hann var sautján ára gamall þegar hann gekk til liðs við lýðveldisherinn árið 1936. Særðist hann í orrustu í Teruel í Aragón-héraði. Gekk Mateu þá til liðs við alþjóðaherdeildina, sveit sjálfsboðaliða útlendinga sem vildu berjast gegn fasisma.
Þegar lýðveldissinnar töpuðu stríðinu árið 1939 var Mateu tekinn höndum og dúsaði hann í fangabúðum og fangelsum. Barðist hann gegn fasistum á Spáni frá 1944 til 1947 en fór síðan í útlegð í Frakklandi.
Spænsk vinasamtök alþjóðaherdeildarinnar staðfesta að Matue hafi látist á sunnudag en hann var síðasti liðsmaður hennar sem enn lifði, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Áætlað er að um 35.000 manns frá 53 löndum hafi gengið til liðs við alþjóðaherdeildina eftir að borgarastríðið braust út í október árið 1936. Um tíu þúsund þeirra féllu. Breski rithöfundurinn George Orwell var einn þeirra sem buðu sig fram og skrifaði hann meðal annars bókina „Virðingarvottur við Katalóníu“ um reynslu sína af stríðinu og heiftúðuga valdabaráttu ólíkra fylkinga lýðveldissinna.
Að minnsta kosti þrír Íslendingar tóku þátt í borgarastríðinu á Spáni.