Fótbolti

Í­hugar að skipta um lands­lið eftir svekk­elsi þriðju­dagsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Skiptir Billing til Nígeríu?
Skiptir Billing til Nígeríu? Robin Jones/Getty

Daninn Philip Billing er ansi svekktur með að hafa ekki verið valinn í danska EM-hópinn sem var tilkynntur á þriðjudagskvöldið.

Billing er leikmaður Bournemouth en þar hefur hann leikið frá árinu 2019 er hann kom til félagsins frá Huddersfield.

Faðir Billing er frá Nígeríu og þeir hafa lengi verið á höttunum eftir kröftum Billing í nígeríska landsliðið.

Hann hefur hingað til ekki haft áhuga á því en eftir að danski EM hópurinn var kynntur í fyrrakvöld íhugar nú Billing að skipta um þjóðina sem hann spilar fyrir.

„Ég hef talað við þjálfarann nokkrum sinnum og nú er það enn meira sem ég þarf að hugsa um eftir að hafa ekki verið valinn í EM-hópinn,“ sagði Billing um samtöl sín við nígeríska þjálfarateymið.

„Bráðum er það líka HM sem ég þarf að hugsa um. Ég er bráðum 25 ára og hef bara spilað einn landsleik. Ég er með markmið sem ég vil ná á mínum ferli.“

„Ég hef séð svo mikið frá danska knattspyrnusambandinu og landsliðinu síðustu ár að ég bjóst ekki við að vera valinn en ég vonaðist eftir því. Þetta er EM og er risa stórt. Þetta er líka í Danmörku og þetta er draumur allra.“

Í maí 2020 sagði Billing í samtali við danska miðilinn BT að hann væri hundrað prósent Dani og að það væri skrýtið að spila fyrir Nígeríu.

Núna hafa aðstæðurnar breyst og hann getur enn spilað fyrir Nígeríu þrátt fyrir að hafa spilað vináttulandsleik gegn Færeyjum í október og þrettán unglingalandsleiki fyrir Dani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×