Fótbolti

15 dagar í EM: Þegar Van Basten braut lögmál eðlisfræðinnar í úrslitaleik EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Færið var mjög þröngt en skotið hans Marco Van Basten var þeim mun betra.
Færið var mjög þröngt en skotið hans Marco Van Basten var þeim mun betra. Getty/Alessandro Sabattini

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Mark Hollendingsins Marco van Basten í úrslitaleiknum á EM 1988 er örugglega enn í fersku minni hjá þeim sem sáu það fyrir meira en þremur áratugum síðan.

Hollendingar hafa aðeins unnið eitt stórmót og það var EM í Vestur-Þýskalandi fyrir 33 árum síðan. Hollendingar byrjuðu EM 1988 ekki vel en spiluðu betur með hverjum leiknum og unnu loks eftirminnilega sigur.

Marco van Basten hafði verið að glíma við meiðsli á tímabilinu og byrjaði Evrópumótið 1988 á bekknum í tapleik. Hann endaði það sem Evrópumeistari, markakóngur og með því að skora eitt magnaðasta mark sögunnar.

Eftir tap í fyrsta leiknum þá kom Van Basten inn í byrjunarliðið fyrir leikinn á móti Englandi og skoraði þar þrennu. Í undanúrslitaleiknum fiskaði hann víti og skoraði síðan sigurmarkið í blálokin á móti gestgjöfum Vestur-Þjóðverja. Í úrslitaleiknum lagði Van Basten upp fyrra markið fyrir Ruud Gullit í 2-0 sigri á Sovétmönnum en hápunkturinn kom á 54. mínútu leiksins.

Arnold Mühren átti þá háa og svífandi fyrirgjöf á fjærstöngina. Mühren hefur sjálfur talað um að þetta hafi verið slök fyrirgjöf en hún bauð Van Basten upp á möguleikann á að skora ótrúlegt mark.

Van Basten tók boltann viðstöðulaust á lofti og svínhitti hann. Honum virtist líka takast það að brjóta lögmál eðlisfræðinnar þegar boltinn fór yfir Rinat Dasayev í marki Sovétmanna en datt svo jafnframt niður í fjærhornið. Færið var þröngt en skotið stórkostlegt.

„Það var komið fram í seinni háfleik og ég var orðinn svolítið þreyttur. Boltinn kom fyrir frá Arnold Mühren og ég hugsaði: Ég get tekið hann niður og reynt að gera eitthvað á móti öllum þessum varnarmönnum eða farið auðveldu leiðina, tekið áhættuna og skotið. Þú þarf mikla heppni í svona skot en allt gekk upp,“ sagði Marco van Basten um markið í viðtali við heimasíðu UEFA.

„Svona hlutir gerast stundum. Þú þarft svo mikla heppni og þarna fékk ég tækifæri til að reyna þetta á réttum tím. Ég get sagt fullt af sögum en þetta var frábær tilfinning. Ég verð að vera þakklátur fyrir að mér og Hollandi var gefið svona móment,“ sagði Van Basten en bætti við:

„Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað ég hafði gert. Það sést líka á viðbrögðunum mínum því þar er ég eiginlega að spyrja menn: Hvað er að gerast?, rifjaði Marco van Basten upp í þessu viðtali.

Hér fyrir neðan má sjá flottustu mörkin frá Evrópumótinu 1988 en það var ekki erfitt að velja það fallegasta.

Klippa: Fallegustu mörkin á EM 1988

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×