Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Valur 25-34 | Valsmenn náðu 3. sætinu Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 27. maí 2021 21:43 Róbert Aron Hostert skoraði sex mörk og var markahæstur í liði Vals ásamt Finni Inga Stefánssyni. vísir/elín björg Valur vann öruggan sigur á Aftureldingu, 25-34, í lokaumferð Olís-deildar karla í kvöld. Þar sem Stjarnan tapaði fyrir Fram á sama tíma endaði Valur í 3. sæti deildarinnar. Valsmenn mæta KA-mönnum í átta liða úrslitum. Afturelding endaði hins vegar í 8. sætinu og mætir deildarmeisturum Hauka í átta liða úrslitunum. Valsmenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum í Mosfellsbænum og leiddu allan tímann. Staðan í hálfleik var 14-19, Val í vil. Gestirnir stungu svo endanlega af um miðjan seinni hálfleik og unnu á endanum níu marka sigur. Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, keyrðu grimmt í bakið á Mosfellingum og skoruðu mikið eftir hraðar sóknir. Vörn Aftureldingar var engin fyrirstaða fyrir Val sem skoraði að vild. Á meðan voru heimamönnum oft mislagaðar hendur í sókninni. Valsmenn voru alltaf með yfirhöndina en náðu ekki að hrista Mosfellinga af sér. Valur náði sjö marka forskoti, 12-19, en Afturelding skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum því 14-19. Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega, Björgvin Franz Björgvinsson varði nokkur skot og heimamenn minnkuðu muninn í þrjú mörk, 17-20. Gestirnir svöruðu með 5-1 kafla og náðu aftur afgerandi forskoti. Mörkunum rigndi inn og munurinn jókst eftir því sem á leikinn leið. Þegar yfir lauk munaði níu mörkum á liðunum. Lokatölur 25-34, Val í vil. Af hverju vann Valur? Mosfellingar máttu sín lítils gegn öflugum Valsmönnum, sérstaklega í vörninni. Valur skoraði nánast í hverri einustu sókn og vörn Aftureldingar var frekar máttlaus í kvöld. Valsmenn skoruðu níu mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum og annað eins eftir hraða miðju. Þá var munurinn á markvörslunni gríðarlega mikill. Markverðir Vals vörðu samtals sextán skot (39 prósent) en markverðir Aftureldingar samtals tólf skot (26 prósent). Hverjir stóðu upp úr? Liðsframlagið hjá Val var gott og markaskorið dreifðist vel. Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum og Róbert Aron Hostert var sömuleiðis öflugur með sex mörk. Einar Þorsteinn Ólafsson lék vel í vörninni og skoraði auk þess fjögur mörk. Þá vörðu Einar Baldvin Baldvinsson og Martin Nagy báðir vel. Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha átti góðan leik fyrir Aftureldingu, bæði í stöðu skyttu og hornamanns, og skoraði sex mörk líkt og Þorsteinn Leó Gunnarsson. Blær Hinriksson var markahæstur Mosfellinga með sjö mörk en tapaði boltanum of oft. Hvað gekk illa? Markvarslan hjá Aftureldingu var takmörkuð sem fyrr sagði. Markvörðunum til varnar fengu þeir afar litla hjálp frá vörn heimamanna. Bergvin Þór Gíslason átti svo afar erfitt uppdráttar í sókninni og var með afleita skotnýtingu, eitt mark í átta skotum. Hvað gerist næst? Afturelding tekur á móti Haukum í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum á mánudaginn. Daginn eftir sækir Valur KA heim. Seinni leikur Aftureldingar og Hauka fer fram á fimmtudaginn og seinni leikur Vals og KA á föstudaginn. Gunnar: Köstum ekki inn hvíta handklæðinu fyrirfram Gunnar Magnússon var ekki ánægður með frammistöðuna gegn Val.vísir/hulda margrét „Við byrjuðum illa. Ég er mest óánægður með fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar. Við byrjuðum hægt, vorum flatir og þeir náðu strax forystu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, eftir tapið fyrir Val. „Heilt yfir voru Valsmenn betra liðið inni á vellinum. Við töpuðum fyrir betra liði. Mér fannst við samt sem áður slakir og þetta var með því slakara sem við höfum sýnt í svolítinn tíma. Ég er óánægður með frammistöðuna.“ Afturelding tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í síðustu umferð og Gunnar viðurkennir að það hafi kannski orðið spennufall hjá liðinu eftir það. „Ég held það því miður. Ég var að reyna að gíra þá upp því það voru fullt af möguleikum í stöðunni, að komast ofar. Mér fannst við aldrei ná almennilegum takti og vorum ekki góðir,“ sagði Gunnar. Í átta liða úrslitunum mætir Afturelding deildarmeisturum Hauka. Verkefnið er ærið svo ekki sé meira sagt. „Þetta er verðugt verkefni. Við náðum markmiðinu okkar, að komast í úrslitakeppnina. Nú er mikilvægt að fara í þessa tvo leiki á fullu. Við erum með marga unga leikmenn og ef við gerum þetta almennilega getur þetta verið mikil fjárfesting fyrir framtíðina,“ sagði Gunnar. „Við munum undirbúa okkur vel og gefa allt sem við eigum. Þetta eru tveir leikir, nýtt fyrirkomulag og allt hægt í þessu. Haukaliðið er ógnarsterkt en við höfum engu að tapa og í versta falli verður þetta dýrmæt reynsla fyrir okkur. En við köstum ekki inn hvíta handklæðinu fyrirfram. Við ætlum að sjálfsögðu að gera allt til að vinna þá.“ Snorri Steinn: Nokkuð bjartsýnn fyrir framhaldið Valur vann síðustu tvo leiki sína í Olís-deildinni.vísir/vilhelm Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn á Aftureldingu og að ná 3. sæti Olís-deildarinnar. Hann kveðst nokkuð brattur fyrir úrslitakeppnina. „Ég er mjög sáttur og fannst við gera þetta vel. Eflaust bar þessi leikur þess merki að það er stutt í úrslitakeppnina en mér fannst við samt leggja vel í þetta og ég rúllaði mikið á liðinu. Ég fékk það sem ég vildi út úr leiknum. Ég vildi vinna og fá góða frammistöðu,“ sagði Snorri eftir leikinn. Liðsheildin hjá Val var öflug í leiknum í kvöld og margir lögðu í púkkið. „Það var meðvitað fyrir þessa tvo síðustu leiki. Við ætluðum að vinna þá en þeir þróuðust þannig að ég gat rúllað á liðinu. Við í þjálfarateyminu töldum mikilvægt að spila á mörgum mönnum og leyfa sem flestum sem að komast í sem mestan takt fyrir framhaldið,“ sagði Snorri. Í átta liða úrslitunum mætir Valur KA sem endaði í 6. sæti deildarinnar. „Mér líst vel á það. Það verður geggjað að fara norður, sérstaklega þegar búið er að leyfa áhorfendur. Það er yfirleitt sturluð stemmning þar. Það er gott að fara að byrja þessa úrslitakeppni. Þetta hefur verið langur vetur og erfiður á margan hátt,“ sagði Snorri. Hann vonast til að Valsmenn séu nú komnir á beinu brautina og haldi sér á henni. „Miðað við oft í vetur erum við frekar í meðvindi en mótvindi. Þetta hefur verið í báðar áttir hjá okkur og það er ekkert leyndarmál að stöðugleikann hefur skort. Ég hef ekki verið ánægður með það og það er kannski ástæðan fyrir því að við erum ekki ofar en í 3. sæti,“ sagði Snorri. „Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir framhaldið og er ánægður með stöðuna á meiðslunum hjá okkur. Það hefur verið bras á því í vetur en það horfir til betri vegar hvað það varðar og það er mjög jákvætt fyrir úrslitakeppnina.“ Olís-deild karla Afturelding Valur
Valur vann öruggan sigur á Aftureldingu, 25-34, í lokaumferð Olís-deildar karla í kvöld. Þar sem Stjarnan tapaði fyrir Fram á sama tíma endaði Valur í 3. sæti deildarinnar. Valsmenn mæta KA-mönnum í átta liða úrslitum. Afturelding endaði hins vegar í 8. sætinu og mætir deildarmeisturum Hauka í átta liða úrslitunum. Valsmenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum í Mosfellsbænum og leiddu allan tímann. Staðan í hálfleik var 14-19, Val í vil. Gestirnir stungu svo endanlega af um miðjan seinni hálfleik og unnu á endanum níu marka sigur. Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, keyrðu grimmt í bakið á Mosfellingum og skoruðu mikið eftir hraðar sóknir. Vörn Aftureldingar var engin fyrirstaða fyrir Val sem skoraði að vild. Á meðan voru heimamönnum oft mislagaðar hendur í sókninni. Valsmenn voru alltaf með yfirhöndina en náðu ekki að hrista Mosfellinga af sér. Valur náði sjö marka forskoti, 12-19, en Afturelding skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum því 14-19. Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega, Björgvin Franz Björgvinsson varði nokkur skot og heimamenn minnkuðu muninn í þrjú mörk, 17-20. Gestirnir svöruðu með 5-1 kafla og náðu aftur afgerandi forskoti. Mörkunum rigndi inn og munurinn jókst eftir því sem á leikinn leið. Þegar yfir lauk munaði níu mörkum á liðunum. Lokatölur 25-34, Val í vil. Af hverju vann Valur? Mosfellingar máttu sín lítils gegn öflugum Valsmönnum, sérstaklega í vörninni. Valur skoraði nánast í hverri einustu sókn og vörn Aftureldingar var frekar máttlaus í kvöld. Valsmenn skoruðu níu mörk eftir hraðaupphlaup í leiknum og annað eins eftir hraða miðju. Þá var munurinn á markvörslunni gríðarlega mikill. Markverðir Vals vörðu samtals sextán skot (39 prósent) en markverðir Aftureldingar samtals tólf skot (26 prósent). Hverjir stóðu upp úr? Liðsframlagið hjá Val var gott og markaskorið dreifðist vel. Finnur Ingi Stefánsson skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum og Róbert Aron Hostert var sömuleiðis öflugur með sex mörk. Einar Þorsteinn Ólafsson lék vel í vörninni og skoraði auk þess fjögur mörk. Þá vörðu Einar Baldvin Baldvinsson og Martin Nagy báðir vel. Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha átti góðan leik fyrir Aftureldingu, bæði í stöðu skyttu og hornamanns, og skoraði sex mörk líkt og Þorsteinn Leó Gunnarsson. Blær Hinriksson var markahæstur Mosfellinga með sjö mörk en tapaði boltanum of oft. Hvað gekk illa? Markvarslan hjá Aftureldingu var takmörkuð sem fyrr sagði. Markvörðunum til varnar fengu þeir afar litla hjálp frá vörn heimamanna. Bergvin Þór Gíslason átti svo afar erfitt uppdráttar í sókninni og var með afleita skotnýtingu, eitt mark í átta skotum. Hvað gerist næst? Afturelding tekur á móti Haukum í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum á mánudaginn. Daginn eftir sækir Valur KA heim. Seinni leikur Aftureldingar og Hauka fer fram á fimmtudaginn og seinni leikur Vals og KA á föstudaginn. Gunnar: Köstum ekki inn hvíta handklæðinu fyrirfram Gunnar Magnússon var ekki ánægður með frammistöðuna gegn Val.vísir/hulda margrét „Við byrjuðum illa. Ég er mest óánægður með fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar. Við byrjuðum hægt, vorum flatir og þeir náðu strax forystu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, eftir tapið fyrir Val. „Heilt yfir voru Valsmenn betra liðið inni á vellinum. Við töpuðum fyrir betra liði. Mér fannst við samt sem áður slakir og þetta var með því slakara sem við höfum sýnt í svolítinn tíma. Ég er óánægður með frammistöðuna.“ Afturelding tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í síðustu umferð og Gunnar viðurkennir að það hafi kannski orðið spennufall hjá liðinu eftir það. „Ég held það því miður. Ég var að reyna að gíra þá upp því það voru fullt af möguleikum í stöðunni, að komast ofar. Mér fannst við aldrei ná almennilegum takti og vorum ekki góðir,“ sagði Gunnar. Í átta liða úrslitunum mætir Afturelding deildarmeisturum Hauka. Verkefnið er ærið svo ekki sé meira sagt. „Þetta er verðugt verkefni. Við náðum markmiðinu okkar, að komast í úrslitakeppnina. Nú er mikilvægt að fara í þessa tvo leiki á fullu. Við erum með marga unga leikmenn og ef við gerum þetta almennilega getur þetta verið mikil fjárfesting fyrir framtíðina,“ sagði Gunnar. „Við munum undirbúa okkur vel og gefa allt sem við eigum. Þetta eru tveir leikir, nýtt fyrirkomulag og allt hægt í þessu. Haukaliðið er ógnarsterkt en við höfum engu að tapa og í versta falli verður þetta dýrmæt reynsla fyrir okkur. En við köstum ekki inn hvíta handklæðinu fyrirfram. Við ætlum að sjálfsögðu að gera allt til að vinna þá.“ Snorri Steinn: Nokkuð bjartsýnn fyrir framhaldið Valur vann síðustu tvo leiki sína í Olís-deildinni.vísir/vilhelm Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með sigurinn á Aftureldingu og að ná 3. sæti Olís-deildarinnar. Hann kveðst nokkuð brattur fyrir úrslitakeppnina. „Ég er mjög sáttur og fannst við gera þetta vel. Eflaust bar þessi leikur þess merki að það er stutt í úrslitakeppnina en mér fannst við samt leggja vel í þetta og ég rúllaði mikið á liðinu. Ég fékk það sem ég vildi út úr leiknum. Ég vildi vinna og fá góða frammistöðu,“ sagði Snorri eftir leikinn. Liðsheildin hjá Val var öflug í leiknum í kvöld og margir lögðu í púkkið. „Það var meðvitað fyrir þessa tvo síðustu leiki. Við ætluðum að vinna þá en þeir þróuðust þannig að ég gat rúllað á liðinu. Við í þjálfarateyminu töldum mikilvægt að spila á mörgum mönnum og leyfa sem flestum sem að komast í sem mestan takt fyrir framhaldið,“ sagði Snorri. Í átta liða úrslitunum mætir Valur KA sem endaði í 6. sæti deildarinnar. „Mér líst vel á það. Það verður geggjað að fara norður, sérstaklega þegar búið er að leyfa áhorfendur. Það er yfirleitt sturluð stemmning þar. Það er gott að fara að byrja þessa úrslitakeppni. Þetta hefur verið langur vetur og erfiður á margan hátt,“ sagði Snorri. Hann vonast til að Valsmenn séu nú komnir á beinu brautina og haldi sér á henni. „Miðað við oft í vetur erum við frekar í meðvindi en mótvindi. Þetta hefur verið í báðar áttir hjá okkur og það er ekkert leyndarmál að stöðugleikann hefur skort. Ég hef ekki verið ánægður með það og það er kannski ástæðan fyrir því að við erum ekki ofar en í 3. sæti,“ sagði Snorri. „Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir framhaldið og er ánægður með stöðuna á meiðslunum hjá okkur. Það hefur verið bras á því í vetur en það horfir til betri vegar hvað það varðar og það er mjög jákvætt fyrir úrslitakeppnina.“
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti