Erlent

Kanna hvort úkraínskir embættismenn hafi reynt að hjálpa Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Úkraínumennirnir eru meðal annars taldir hafa komið misvísandi upplýsingum um Joe Biden í hendur Rudys Giuliani, persónulegs lögmanns Donalds Trump.
Úkraínumennirnir eru meðal annars taldir hafa komið misvísandi upplýsingum um Joe Biden í hendur Rudys Giuliani, persónulegs lögmanns Donalds Trump. Vísir/EPA

Alríkissaksóknarar í New York rannsaka nú hvort að hópur úkraínskra núverandi og fyrrverandi embættismanna hafi reynt að hafa áhrifa á bandarísku forsetakosningarnar í nóvember. Þeir kunni að hafa dreift misvísandi upplýsingum um Joe Biden til að hjálpa Donald Trump að landa sigri.

New York Times segir að sakamálarannsóknin hafi verið sett á laggirnar á lokamánuðum ríkisstjórnar Trump og beinist meðal annars að því hvort að Úkraínumennirnir hafi notfært sér Rudy Giuliani, persónulegan lögmann Trump, til að koma höggi á Biden með misvísandi upplýsingum. Rannsóknin er sögð ótengd annarri rannsókn saksóknara í New York á Giuliani sem áður hefur verið greint frá í fjölmiðlum og að Giuliani sé ekki viðfangsefni hennar.

Á meðal þeirra sem rannsóknin er sögð beinast að er Andrij Derkatsj, úkraínskur þingmaður sem er talinn hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna. Hann er talinn hafa haft alla anga úti til þess að dreifa misvísandi og órökstuddum ásökunum á hendur Biden, þar á meðal í gegnum bandaríska fjölmiðla, samfélagsmiðla og áhrifafólk vestanhafs.

Giuliani hitti Derkatsj í ferð til Evrópu í desember árið 2019 sem var liður í herferð hans og Trump til að finna skaðlegar upplýsingar um Biden og son hans Hunter. Þær umleitanir Trump og Giuliani leiddu á endanum til þess að Bandaríkjaþing kærði forsetann fyrir embættisbrot árið 2019.

Á meðan kæruferlið í Bandaríkjaþingi stóð yfir varaði bandaríska leyniþjónustan Trump við því að Derkatsj reyndi að notfæra sér Giuliani til þess að dreifa rógburði. Giuliani hefur neitað því að hafa fengið slíka viðvörun frá leyniþjónustunni.

Hömpuðu upplýsingum Derkatsj þrátt fyrir refsiaðgerðir

Fjármálaráðuneyti Trump beitti Derkatsj síðar refsiaðgerðum fyrir kosningaafskipti og sakaði hann um að vera handbendi rússneskra stjórnvalda og dreifa stoðlausum upplýsingum.Það kom þó ekki í veg fyrir að Trump og Giuliani hömpuðu upplýsingum sem Derkatsj birti og áttu að skaða Biden í aðdraganda forsetakosninga.

Aukinn kraftur virðist hafa færst í rannsókn saksóknaranna sem beinist að Giuliani sjálfum en fulltrúar alríkislögreglunnar gerðu húsleit á heimili og skrifstofum hans í síðasta mánuði. Sú rannsókn er sögð snúast um hvort að Giuliani hafi á laun gengið erinda úkraínskra embættismanna sem vildu losna við bandaríska sendiherrann í Kænugarði.

Giuliani gróf undan sendiherranum við Trump sem lét kalla hann skyndilega heim í maí árið 2019. Bandarísk alríkislög kveða á um að þeir sem tala máli erlendra fulltrúa við Bandaríkjastjórn verði að skrá þau störf sín opinberlega en það gerði Giuliani aldrei.

Ekki er ljóst hvort að Úkraínumennirnir sem eru til rannsóknar verði nokkru sinni ákærðir enda gæti reynst erfitt að fá þá framselda. Þeir gætu þó verið ákærðir á grundvelli laganna um skráningu málafylgjumanna erlendra ríkja, að sögn bandaríska blaðsins.


Tengdar fréttir

Rann­saka at­lögu Giuli­ani að sendi­herranum í Kænu­garði

Bandarísk alríkisyfirvöld rannsaka nú hlut Rudys Giuliani, persónulegs lögmanns Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í því að ryðja sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu úr vegi árið 2019. Húsleit var gerð á heimili og skrifstofu Giuliani vegna rannsóknarinnar í vikunni.

Húsleit gerð á heimili Rudys Giuliani

Fulltrúar bandarísku alríkislögreglunnar gerðu húsleit á heimili og skrifstofu Rudys Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York og persónulegs lögmanns Donalds Trump fyrrverandi forseta, á Manhattan í dag. Leitin er sögð liður í rannsókn á því hvort að Giuliani hafi starfað fyrir erlend ríki á laun.

Rússar reyndu að hafa áhrif á bandamenn Trump

Vladímír Pútín Rússlandsforseti skipaði persónulega fyrir um tilraunir rússnesku leyniþjónustunnar til þess að koma höggi á Joe Biden í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum síðasta haust. Leyniþjónustan er meðal annars sögð hafa háð leynilega herferð til þess að hafa áhrif á nána bandamenn Donalds Trump, þáverandi forseta.

Facebook og Twitter skipta sér af vafasamri frétt um Biden

Samfélagsmiðlarisarnir Facebook og Twitter takmörkuðu deilingar á vafasamri frétt bandarísks götublaðs um Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, í dag. Talsmaður Facebook segir miðilinn hægja á dreifingu fréttarinnar á meðan staðreyndavaktarar meti sannleiksgildi hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×