Fjöldi þátttökuþjóða í úrslitakeppni EM tvöfaldaðist fyrir keppnina sumarið 1980. Fyrstu fimm Evrópukeppnirnar höfðu aðeins verið með fjórar keppnisþjóðir en nú breyttist úrslitakeppnin í átta þjóða keppni. Það voru hins vegar engin undanúrslit heldur aðeins riðlakeppni og svo úrslitaleikur.
Hetja Vestur-Þjóðverja í úrslitaleiknum var framherjinn stóri og stæðilegi Horst Hrubesch sem skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum á móti Belgíu þar á meðal sigurmarkið með þrumuskalla tveimur mínútum fyrir leikslok.
Þetta voru fyrstu landsliðsmörk Hrubesch og aðeins hans fimmti landsleikur.
Hrubesch var enn bara að spila með áhugamannaliði þegar hann var 23 ára en sló í gegn hjá Rot-Weiss Essen og var á þessum árum í risahlutverki hjá stórliði Hamburger SV sem var mjög sigursælt á þessum árum.
Þjálfarinn sem uppgötvaði hann hjá Rot-Weiss Essen gaf honum gælunafnið Skallaskrímslið.
„Ég reyndi alltaf að spila eins einfalt og mögulegt var og nýta mína hæfileika. Ég var með góðan stökkkraft og hafði ágæta tímasetningu. Ég spilaði í Bundesligunni í átta ár og 81 af 136 mörkum mínum voru skallamörk,“ sagði Horst Hrubesch í viðtali við heimasíðu UEFA.
Það leit samt ekki út fyrir það að Hrubesch yrði valin í EM-hópinn hjá Vestur-Þjóðverjum enda hafði hann ekki spilað landsleik í mars 1980 þremur mánuðum fyrir úrslitaleikinn. Hann fékk tækifærið þegar Klaus Fischer fótbrotnaði í aðdraganda mótsins.
Vestur-þýska landslðið var samt búið að spila þrjá leiki á mótinu þegar kom að úrslitaleiknum og Hrubesch hafði enn ekki skorað mark á mótinu.
„Staðan mín í liðinu var í hættu. Ég var búinn að spila þrjá leiki án þess að skora og ef Jupp Derwall þjálfari hefði ekki valið mig í byrjunarliðið í úrslitaleiknum þá hefði ég ekki getað mótmælt því. Þegar við lítum til baka þá tók hann rétta ákvörðun,“ sagði Horst Hrubesch í viðtali við heimasíðu UEFA.
Hrubesch var þekktastur fyrir skallamörkin sín enda 188 sentimetrar á hæð og mjög öflugur í loftinu. Fyrsta markið hans kom eftir aðeins tíu mínútuna leik og það var ekki skallamark. Belgar náðu hins vegar að jafna í seinni hálfleiknum.
„Við höfðum ekki lifað af framlenginguna. Það var mjög heitt og ég man að ég var svo þreyttur eftir leikinn að ég gat varla lyft bikarnum,“ sagði Hrubesch.
„Seinna markið mitt kom eftir hornspyrnu Karl-Heinz Rummenigge frá vinstri. Það var undirbúið eins og öll okkar horn. Rummenigge gaf mér merki og Jean-Marie Pfaff markvörður gerði þau mistök að vera á línunni. Ég náði góðu uppstökki og hafði ekki í miklum vandræðum með að skalla boltann í markið,“ rifjaði Hrubesch upp.
Horst Hrubesch skoraði aðeins fjögur landsliðsmörk til viðbótar á ferlinum og eitt þeirra kom í úrslitakeppni HM 1982 á Spáni þar sem hann vann silfur með vestur-þýska landsliðinu.
Hrubesch varð líka þrisvar sinnum þýskur meistari með Hamburger SV (1979, 1982 og 1983) auk þess að vinna Evrópukeppni meistaraliða árið 1983.
EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.