Þyrlur, leitarhundar og meira en 200 lögreglumenn taka þátt í leitinni í kring um bæinn Le Lardin-Saint-Lazare í Dordogne héraðinu. Fréttamiðlar á svæðinu greina frá því að maðurinn sé á þrítugsaldir og hafi komið inn á borð lögreglu eftir að hafa beitt heimilisofbeldi. Maðurinn er sagður þungvopnaður.
„Maðurinn fór að heimili fyrrverandi maka síns þar sem ágreiningur átti sér stað. Lögregla var kölluð til og þegar hún kom á vettvang skaut hinn grunaði af skotvopni í átt að lögreglu. Hann flúði inn í skóglendi þar nærri,“ sagði Frédéric Périssat, héraðsstjóri í Dordogne, í samtali við sjónvarpsstöðina BFM.
Hann bætti því við að maðurinn sé líklega á fjögurra ferkílómetra svæði fyrir utan bæinn en svæðið sé erfitt yfirferðar. Það sé skógi vaxið og mikið um holt og hæðir.