Fótbolti

Ofurframlína hjá Frökkum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er ekkert grín að reyna að stoppa þá Karim Benzema og Kylian Mbappe sitt í hvoru lagi hvað þá að eiga við þá þegar þeir eru farnir að vinna saman inn á vellinum.
Það er ekkert grín að reyna að stoppa þá Karim Benzema og Kylian Mbappe sitt í hvoru lagi hvað þá að eiga við þá þegar þeir eru farnir að vinna saman inn á vellinum. Getty/Quality Sport Images

Knattspyrnuáhugafólk gæti séð svolítið í kvöld sem það hefur aldrei séð áður. Frakkar geta nefnilega stillt upp mjög áhugaverðari framlínu í vináttuleik á móti Wales.

Heimsmeistarar Frakka eru að undirbúa sig fyrir Evrópumeistaramótið í sumar en þeir fengu silfur á heimavelli sumarið 2016 og hafa því komist í úrslitaleikinn á síðustu tveimur stórmótum fótboltans.

Liðið er nú komið saman og hefur hafið lokaundirbúning sinn fyrir mótið. Liður í því er að spila vináttuleiki og í kvöld mæta Frakkarnir liði Wales.

Á blaðamannafundi fyrir leikinn þá var ekki að heyra annað á franska landsliðsþjálfaranum Didier Deschamps að hann ætlaði að frumsýna nýja framlínu í kvöld.

Deschamps verður væntanlega með þá Karim Benzema, Kylian Mbappe og Antoine Griezmann í framlínunni í fyrsta sinn þegar hann sendir lið út á völl í kvöld. Allir eru þeir lykilmenn í sóknarleik þriggja af stærstu fótboltaklúbbum heims, Real Madrid, Paris Saint-Germain og Barcelona.

Deschamps er nefnilega með Real Madrid manninn Karim Benzema í landsliði sínu í fyrsta sinn í fimm ár en svo langur tími er liðin síðan Benzema lék sinn síðasta landsleik. Benzema var settur út í kuldann eftir deilur við Deschamps.

Síðan þá hefur Karim Benzema raðað inn mörkum hjá Real Madrid og hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem einn besti framherji heims. Frakkar unnu samt silfur á EM og gull á HM án hans.

Nú ætla Frakkar hins vegar að gera allt til að vinna báða stóru titlana og Deschamps fannst því kominn tími á slyðra sverðin og kalla á Benzema.

Frumsýningin í kvöld mun síðan gefa okkur sýnishorn af því hvernig lið ráða við að mæta framlínu með þeim Benzema, Mbappe og Griezmann.

Allt eru þetta ólíkir leikmenn og frábærir hver á sinn hátt. Það yrði því frábærar fréttir fyrir Frakka ef þeir ná vel saman í þessum fyrsta leik sínum í framlínu franska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×