Skoðun

Höfum á­hrif - kjósum fram­tíðina!

Brynjólfur Magnússon skrifar

Dagana 4.-5. júní fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er valið fólk til forystu flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir komandi Alþingiskosningar í haust. Það er fagnaðarefni hversu margir frambærilegir frambjóðendur hafa skráð sig til leiks og eru tilbúnir að starfa fyrir Reykvíkinga á Alþingi okkar Íslendinga.

Þeirra á meðal er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sækist eftir fyrsta sæti í prófkjörinu. Áslaug Arna hefur setið á þingi undanfarin fimm ár og gegnt embætti dómsmálaráðherra frá árinu 2019. Þá hefur hún gegnt formennsku í allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd. Á þeim tíma hefur Áslaug Arna sannarlega látið verkin tala svo eftir hefur verið tekið og leyst vel úr verkefnum sem mörg hver hafa verið flókin og erfið viðfangs. Áslaug Arna hefur á síðustu fimm árum sýnt að í henni býr öflugur og framúrskarandi stjórnmálamaður og framtíðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Hún er kraftmikill talsmaður höfuðborgarinnar, frjálslyndis og mannréttinda og hefur þá sýn að öll þjónusta ríkisins eigi að miða að því að einfalda líf fólks - en ekki flækja það, og þar hefur hún látið hendur standa fram úr ermum. Þar má til dæmis nefna rafræn ökuskírteini, nútímavæðingu sýslumannsembættanna og heimild til að skrá heimili barna á tveimur heimilum. Þessi dæmi eru til marks um hvernig Áslaug Arna gengur í takt við samfélagið okkar og gerir það með skýra framtíðarsýn að leiðarljósi.

Áslaug Arna er stjórnmálamaður sem þorir að taka ákvarðanir - þótt svarið sé stundum nei. Hún er ekki sú sem lætur málin daga uppi í nefndum og skýrsluskrifum. Hún er einörð í afstöðu sinni en tekst samt að fá fólkið með sér.

Prófkjör er vettvangur til þess að hafa áhrif og velja fólk til forystu í stjórnmálum. Auðvelt er að skrá sig til leiks og taka þátt. Ég hvet því alla Reykvíkinga til að taka þátt í prófkjörinu og styðja Áslaugu Örnu til forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík! Það mun ég sannarlega gera.

Höfundur er Reykvíkingur.




Skoðun

Sjá meira


×