Þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, allir í sóttkví, og sjö greindust á landamærum en bíða allir mótefnamælingar, samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að þeir sem greindust í fyrradag hafi farið í sýnatöku á fimmtudag en jákvæð niðurstaða ekki fengist staðfest fyrr en í gær.
„Þannig að þeir voru allir komnir í sóttkví þegar þetta gerist en voru bara nýkomnir í sóttkví,“ segir Víðir.
Ekkert kom út úr umfangsmikilli skimun
Hann býst við því að fleiri greinist í tengslum við hópsmitið, sem er meðal umsækjenda um alþjóðlega vernd í búsetuúrræði á vegum útlendingastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á annað hundrað hafa þurft að fara í sóttkví vegna smitanna.
„Við erum búin að koma öllum sem voru útsettir sem við vitum um í sóttkví. Þannig að við eigum von á því að fleiri greinist í tengslum við þetta næstu daga en vonandi ekkert út fyrir þennan hóp,“ segir Víðir.
„Það eru nokkrir staðir þar sem fólk hefur þurft að fara í sóttkví. En við fórum í umfangsmikla skimun og það kom ekkert út úr því.“
Tekist hefur að rekja sýkinguna til tveggja smita frá því fyrir rúmri viku, að sögn Víðis.
„Þar sem við erum ekki með tenginu við landamærin, þetta virðist hafa komist inn í landið án þess að við fundum það, enn sem komið er, en það er verið að liggja yfir þessu, sérfræðingar Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri eru að skoða raðgreiningarmynstrin í þessu.“
Óbólusettir fari áfram varlega
Þá hafi almannavarnir enn áhyggjur af veisluhöldum meðal ungs fólks.
„Við erum þá aðallega að horfa á hópamyndun þeirra sem ekki hafa fengið bólusetningu. Það gengur vel að bólusetja núna og þeim fjölgar stöðugt sem hafa að minnsta kosti fengið eina sprautu þannig að þeir sem ekki hafa fengið bólusetningu, við biðlum sérstaklega til þeirra að fara varlega,“ segir Víðir.
Hann kveðst bjartsýnn á að frekari tilslakanir séu í kortunum.
„Við verðum að sjá aðeins til en ég á ekki von á öðru en þetta liggi til seinni partinn í næstu viku hvaða hugmyndir sóttvarnalæknir hefur í því. Og það er miðvikudagurinn eftir rúma viku sem þetta á að taka gildi.“