Innlent

Ástin blómstraði í Tryggvaskála

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bryndís Brynjólfsdóttir, sem er fædd og uppalinn í Tryggvaskála á Selfossi.
Bryndís Brynjólfsdóttir, sem er fædd og uppalinn í Tryggvaskála á Selfossi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ástarævintýri, sem enduðu með farsælum hjónaböndum gerðust á böllum í Tryggvaskála á Selfossi. Þá gisti Kristján tíundi konungur Danmerkur í skálanum 1921. Sögusýning um Tryggvaskála, sem fagnaði 130 ára afmæli á síðasta ári hefur nú verið opnuð.

Tryggvaskáli, sem stendur við Ölfusárbrú á Selfossi er elsta hús staðarins, byggt 1890 fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar, alþingismanns en húsið var fyrst notað fyrir brúarsmiði Ölfusárbrúar. Árið 1901 hófst veitingarekstur í húsinu og þar var einnig rekið gistiheimili og önnur fjölbreytt starfsemi.

„Saga Tryggvaskála, brúarinnar og bæjarins er náttúrlega samofin því að hér er þetta, sem allt byrjaði. Hér var fyrsti barnaskólinn, fyrsti bankinn, fyrsta pósthúsið, flest félög, sem voru stofnuð á Selfossi voru stofnuð í skálum og hér áttu margir athvarf. Hér bara gerðust hlutirnir í gamla daga,“ segir Bryndís Brynjólfsdóttir, sem er fædd og uppalinn í Tryggvaskála fram undir þrítugt.

Þorvarður Hjaltason og Bryndís, sem eiga bæði sæti í Skálafélaginu svonefnda eiga heiðurinn af nýju sögusýningunni í Tryggvaskála, ásamt Birni G. Björnssyni, sýningarhönnuði.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Bryndís segir að böllin í skálanum hafa verið fræg og þar hafi mörg farsæl hjónabönd orðið til. Margar ungar stúlkur komu alls staðar að til að vinna í Tryggvaskála þar sem þær hittu meðal annars strákana úr Iðnskólanum á Selfossi.

Tryggvaskáli, sem stendur við Ölfusárbrú er eitt af aðal kennileitunum á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Já, úr þessum kunningsskap urðu ansi mörg hjónabönd,“ segir hún hlægjandi.

Kóngur hefur gist í Tryggvaskála.

„Já, já, Kristján Danakonungur kom hér 1921 og þá var nýbúið að byggja efri hæðina og þá var komin stærsti salur, sem var hér í Árnessýslu og honum var boðið til hádegisverðar hérna upp á lofti og auðvitað köllum við salinn konungssalinn vegna þess að hann hafði snætt hérna.“

Sýningin í Tryggvaskála er mjög fróðleg og skemmtileg, sem Björn G. Björnsson hafði yfirumsjón með í góðu samstarfi við Bryndísi og Þorvarð.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×