Skoðun

Hvað gerum við nú?

Finnur Ricart Andrason skrifar

Pælingar eftir áhorf Apausalypse

Hvað segjum við, hvað gerum við, nú þegar faraldurinn tekur að lægja? Við höfum lært að líta inn á við, að takast á við einmanaleika og innilokun. Við höfum uppgötvað á ný hve mikils virði mannleg samskipti, tengsl, ást og umhyggja eru. Nú þegar við stöndum nær brúninni enn nokkru sinni áður, þá má spurja sig: ætlum við að nýta þetta tækifæri og takast á, af alvöru, við þau gríðarstóru vandamál sem liggja frammi fyrir okkur? Eða ætlum við að hrökklast aftur til baka inn í þægindin, inn í ysinn og þysinn?

Þetta eru spurningarnar sem vakna við áhorf Apausalypse, leikstýrt af Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnasyni. Ég held að þessi mynd verði mikilvægur gripur, í sagnfræðilegu samhengi, í framtíðinni. Hún nær að fanga það absúrd og abstrakt andrúmsloft sem skapaðist þegar samfélaginu var skellt í lás og þegar hagkerfið var stöðvað. Myndin nær að fanga sjaldgæfan atburð í mannkynssögunni, mögulegan vendipunkt sem gæti hrint af stað stórum samfélagslegum breytingum.

Myndin setur heimsfaraldurinn í samhengi við tækifæri sem við höfum fengið til að endurhugsa lifnaðarhætti og forgangsraðanir okkar. Við höfum séð hvað við getum gert í krísuástandi. Nú þurfum við að ákveða hvort við viljum breyta þessari krísu í tækifæri, í verulegan vendipunkt. Það er í okkar höndum að ákveða hvernig við endurreisum samfélagið okkar og hvort við tökumst á við loftslags vána, og aðrar minni sýnilegar samfélagslegar krísur, af sama krafti og við tókumst á við heimsfaraldurinn.

Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að nota þetta tækifæri sem faraldurinn hefur veitt okkur til þess að ráðast í breytingar í samfélaginu og endurraða gildum okkar. Við söknuðum snertingar og mannlegra samskipta. Við komumst að því hversu mikið við þurfum á hvert öðru að halda, og okkur þykir jafnvel enn væntar um okkar nánust heldur en áður. Núna þurfum við að framlengja þessa væntumþykju til framtíðarkynslóða sem eru í hættu vegna gjörða okkar og aðgerðarleysis.

Ef þú vilt komast að því hvort þú deilir þessari skoðun með mér mæli ég með að þú farir á Apausalypse í Bío Paradís.

Höfundur er loftslagsaktívisti.




Skoðun

Sjá meira


×