Körfubolti

Styrmir Snær í fámennan úrvalshóp með frammistöðu sinni í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styrmir Snær Þrastarson hefur verið frábær í vetur og magnaður í síðustu leikjum Þórs í úrslitakeppninni.
Styrmir Snær Þrastarson hefur verið frábær í vetur og magnaður í síðustu leikjum Þórs í úrslitakeppninni. Vísir/Bára

Styrmir Snær Þrastarson komst í frábæran hóp með þremur af öflugustu körfuboltamönnum Íslandssögunnar þegar hann skoraði 22 stig í sigri Þórs á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Domino's deild karla í körfubolta.

Þetta var í fjórða skiptið sem Styrmir Snær nær að skora tuttugu stig í þessari úrslitakeppni. Það eru aðeins þrír aðrir táningar sem hafa náð þessu í sögu úrslitakeppninnar. Hinir eru Martin Hermannsson, Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson.

Styrmir endaði leikinn með 70 prósent skotnýtingu og auk stiganna 22 var hann með 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hann fékk 31 framlagsstig fyrir þennan leik en í leiknum á undan var hann með 20 skoruð stig og 23 framlagsstig.

Styrmir skoraði yfir tuttugu stig í tveimur af fjórum leikjum í einvíginu á móti Þór Akureyri í átta liða úrslitunum og þetta var eins og áður sagði annar leikurinn í röð sem Styrmir á tuttugu stiga leik. Styrmir er með 16,4 stig, 7,0 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í fyrstu sjö leikjum Þórs í úrslitakeppninni í ár.

Martin Hermannsson á metið en hann átti sex tuttugu stiga leiki með KR í úrslitakeppninni 2014. Martin var með 18,4 stig, 3,6 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í þeirri úrslitakeppni þar sem KR vann Íslandsmeistaratitilinn og Martin var kosinn bestur.

Logi Gunnarsson var með fimm tuttugu stiga leiki þegar hann hjálpaði NJarðvík að vinna Íslandsmeistaratitilinn vorið 2001. Logi var með 20,7 stig, 4,6 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í þeirri úrslitakeppni. Hann átti meðal annars tvo þrjátíu stiga leiki í úrslitaeinvíginu á móti Tindastól.

Jón Arnór Stefánsson átti fjóra tuttugu stiga leiki með KR í úrslitakeppninni vorið 2002. Jón Arnór og KR-ingar duttu út á móti verðandi Íslandsmeisturum Njarðvíkur í undanúrslitunum. Jón Arnór var með 19,3 stig, 4,3 fráköst og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í þeirri úrslitakeppni.

Oftast yfir tuttugu stig hjá táningi í einni úrslitakeppni:

  • 6 sinnum - Martin Hermannsson með KR 2014
  • 5 sinnum - Logi Gunnarsson með Njarðvík 2001
  • 4 sinnum - Jón Arnór Stefánsson með KR 2002
  • 4 sinnum - Styrmir Snær Þrastarson með Þór Þorl. 2021
  • 3 sinnum - Elvar Már Friðriksson með Njarðvík 2014
  • 2 sinnum - Birgir Mikaelsson með KR 1985
  • 2 sinnum - Elvar Már Friðriksson með Njarðvík 2013
  • 2 sinnum - Helgi Jónas Guðfinnsson með Grindavík 1996
  • 2 sinnum - Jón Arnór Stefánsson með KR 2001
  • 2 sinnum - Martin Hermannsson með KR 2013
  • 2 sinnum - Óskar Freyr Pétursson með Haukum 1995



Fleiri fréttir

Sjá meira


×