Handbolti

Aldís svaraði kalli Rutar í lokasókninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði sex mörk í báðum leikjunum gegn Val.
Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði sex mörk í báðum leikjunum gegn Val. vísir/hulda margrét

Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði markið sem gulltryggði KA/Þór fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.

Thea Imani Sturludóttir minnkaði muninn í eitt mark, 23-24, fyrir Val í leiknum gegn KA/Þór í gær þegar tæp hálf mínúta var eftir. Akureyringar spiluðu boltanum í kjölfarið á milli sín og þegar sjö sekúndur lifðu leiks tók Andri Snær Stefánsson leikhlé.

Eftir nokkur skilaboð frá þjálfaranum tók Rut Jónsdóttir til máls og lagði línurnar.

„Aldís fær hann,“ sagði Rut áður en hún sagði samherjum sínum að brjóta ekki af sér ef þær misstu boltann því þá fengju Valskonur vítakast.

Eftir leikhléið gaf Anna Þyrí Halldórsdóttir boltann á Aldísi sem óð fram völlinn. Valskonur urðu að hleypa henni í gegn og vonast til að hún klikkaði á skotinu. Það gerði hún ekki heldur setti boltann í netið og skoraði sitt sjötta mark í leiknum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Aldís var sérstaklega drjúg í seinni hálfleik þar sem hún skoraði fjögur af sex mörkum sínum. Hún skoraði einnig sex mörk úr tíu skotum í fyrri leiknum gegn Val og endaði úrslitaeinvígið því með tólf mörk í tuttugu skotum.

Alls skoraði Aldís 74 mörk í nítján leikjum í deildar- og úrslitakeppninni í vetur og gaf 59 stoðsendingar. Þá var hún í stóru hlutverki í vörn KA/Þórs.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Átján ára ísköld á ögurstundu

Hin átján ára Rakel Sara Elvarsdóttir átti stóran þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli KA/Þórs og sýndi oft stáltaugar þegar mest var undir í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×