Fótbolti

Belgar og Englendingar líklegastir til að vinna EM

Sindri Sverrisson skrifar
Belgar stefna hátt með Romelu Lukaku í fremstu víglínu.
Belgar stefna hátt með Romelu Lukaku í fremstu víglínu. Getty/Sylvain Lefevre

Lið Danmerkur er eitt af sex liðum sem yfir 90% líkur eru á að komist áfram í útsláttarkeppnina á Evrópumótinu í fótbolta sem hefst á morgun.

Íþróttatölfræðiveitan Gracenote hefur reiknað út hvaða lið eru líklegust til að vinna EM. Mótið virðist samkvæmt þeim útreikningum vera galopið og ekkert lið með afburðum sigurstranglegast.

Belgía, sem er efst á heimslista FIFA, þykir örlítið líklegra en England til að vinna mótið. Gracenote metur sigurlíkur hvorrar þjóðar hæstar allra, eða um 14%. Frakkland (12%), Spánn (10%), Ítalía (9%) og Portúgal (8%) koma næst.

Belgar freista þess að vinna sitt fyrsta stórmót og eina stórmótið sem Englendingar hafa unnið var á heimavelli á HM 1966. England verður á heimavelli í sínum riðli á EM, þar sem liðið mætir Króatíu, Skotlandi og Tékklandi, og gæti mögulega einnig leikið á Wembley í 16-liða úrslitum, undanúrslitum og úrslitum.

Samkvæmt Gracenote eru mestar líkur á að England og Belgía mætist í úrslitaleik EM, en þó aðeins um 2,9% líkur. Næstmestar líkur eru á að England og Ítalía mætist í úrslitum, eða Danmörk og Belgía.

Danir leika á heimavelli í B-riðli, með Belgum, Finnum og Rússum. Gracenote telur yfir 90% líkur á að Danmörk fari áfram úr riðlinum, sem og að Belgar fari upp úr riðlinum. Tölfræðiveitan segir einnig yfirgnæfandi líkur á því að Spánn, England, Holland og Ítalía fari áfram úr sínum riðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×