Innlent

Tólf frambjóðendur keppa um sex sæti í Kraganum

Heimir Már Pétursson skrifar

Tólf frambjóðendur sækjast eftir að skipa sex efstu sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í prófkjöri sem hófst síðdegis í dag og lýkur á laugardag.

Bjarni Benediktsson er óskoraður leiðtogi Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi því enginn keppir við hann um fyrsta sæti á lista flokksins í kjördæminu.Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson formaður flokksins sækist einn eftir fyrsta sætinu en auk hans vilja þrír núverandi þingmenn flokksins skipa efstu sæti listans áfram. Það eru þau Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason.

Einn fyrrverandi þingmaður flokksins, Vilhjálmur Bjarnason, sækist eftir því að komast aftur á þing fyrir flokkinn sem hefur fjóra þingmenn í kjördæminu í dag. Auk áður talinna frambjóðenda vilja Guðbjörg Oddný Jónsdóttir, Hannes Þórður Þorvaldsson, Karen Elísabet Halldórsdóttir, Kristín Thoroddsen, Sigþrúður Ármann, Arnar Þór Jónsson og Bergur Þorri Benjamínsson skipa eitthvað af sex efstu sætum listans.

Sýnishorn að kjörseðli í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.vísir

Flokksmenn geta kosið á fimm þéttbýlisstöðum í kjördæminu til klukkan átta í kvöld og annaðkvöld en kosningu lýkur klukkan sex á laugardag. Síðasta prófkjör flokksins verður í Norðvesturkjördæmi dagana sextánda til nítjánda júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×