Fótbolti

Eriksen tjáir sig í fyrsta sinn eftir hjartastoppið: Ég mun ekki gefast upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Christian Eriksen kalla á hjálp eftir að hann hneig niður.
Liðsfélagar Christian Eriksen kalla á hjálp eftir að hann hneig niður. AP/Martin Meissner

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen hefur tjáð sig í fyrsta sinn opinberlega eftir að hann hné niður eftir hjartastopp í leik Dana og Finna en danski miðjumaðurinn var síðan lífgaður við niðri á vellinum.

Eriksen var fluttur á sjúkrahús og hefur verið þar síðan. Leikurinn var kláraður eftir að fréttist af því að líðan danska landsliðsmannsins væri stöðug.

Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport var fyrst til að fá viðbrögð frá leikmanninum sjálfum eftir atvikið hræðilega á laugardaginn.

„Takk fyrir öll. Ég mun ekki gefast upp,“ sagði Christian Eriksen við blaðamann Gazzetta dello Sport í gegnum umboðsmann sinn.

„Mér líður betur núna en ég vil komast að því hvað gerðist eiginlega,“ sagði Eriksen.

„Ég vil þakka fyrir allt sem þið gerðuð fyrir mig,“ bætti Eriksen við að lokum.

Gazzetta dello Sport sló upp þessu stutta viðtali á forsíð sinni í morgun en Eriksen er leikmaður ítölsku meistarana í Internazionale.

Besta fyrirsögnin var kannski á forsíðu Ekstra bladet en hún var: „Danmörk tapaði en lífið vann“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×