Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa kannað fýsileika þessa að framleiða vetni á Íslandi og flytja það til Hollands undanfarna mánuði. Niðurstaða forskoðunarinnar er að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn hlýnun jarðar auk þess sem það væri fjárhagslega ábatavænt.
Í forskoðuninni voru helstu þættir virðiskeðjunnar tilgreindir, allt frá framleiðslu á endurnýjanlegri orku og vetnisframleiðslu á Íslandi til flutninga til Rotterdam. Mismunandi tegundir flutningaskipa sem gætu flutt vetnið voru bornar saman við tilliti til orkuþéttleika, kostnaðar,eftirspurnar og fleiri þátta, að því er segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Vetnið yrði framleitt með rafgreiningu og því síðan annað hvort breytt í vökva eða annað form og sent með flutningaskipum til Rotterdam. Þar yrði vetninu umbreytt á ný og það tekið til notkunar við höfnina eða sent á markað á meginlandinu.
Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði Vísi að verkefnið væri ekki komið það langt á veg að það lægi fyrir nákvæmlega í hvað það væri notað í Hollandi.
Blanda af endurnýjanlegri orku gæti verið notuð til þess að framleiða vetnið hér á landi: vatnsorka, jarðhiti og vindorka. Á þeim forsendum talar Landsvirkjun um vetnið sem „grænt“ í tilkynningu sinni.
Áætla Landsvirkjun og Rotterdam-höfn að íslenska vetnið gæti dregið úr kolefnislosun sem nemi um einni milljón tonna á ári til að byrja með. Síðar meir sé mögulegt að það komi í veg fyrir losun á milljónum tonna á hverju ári.
Í tilkynningunni segir að Landsvirkjun og Rotterdam-höfn ætli að halda áfram samstarfi að rannsóknum og þróun á verkefninu. Ítarlegri útlistun á áætlunum sé væntanlega á seinni hluta næsta árs.