Innlent

Segir Eyja­menn hafa hótað að opna ekki kosninga­mið­stöð ef Páll yrði í heiðurs­sæti

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gunnar Egilsson (hægri) lagði fram tillögu um að Páll yrði settur í heiðurssæti listans.
Gunnar Egilsson (hægri) lagði fram tillögu um að Páll yrði settur í heiðurssæti listans. vísir/vilhelm/Árborg

Gunnar Egils­son, bæjar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins í Ár­borg, segir Sjálf­stæðis­menn í Vest­manna­eyjum hafa hótað að opna ekki kosninga­skrif­stofu í Eyjum fyrir komandi þing­kosningar og draga sig úr kosninga­bar­áttu fyrir flokkinn ef Páll Magnús­son, nú­verandi odd­viti flokksins í Suður­kjör­dæmi, yrði í heiðurs­sæti.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, segir þetta alrangt hjá Gunnari. 

Eins og Vísir greindi frá um helgina var til­laga um að Páll Magnús­son tæki heiðurs­sæti á lista flokksins í Suður­kjör­dæmi fyrir komandi þing­kosningar felld með miklum meiri­hluta á kjör­dæmis­ráði flokksins fyrir rúmir viku. Gunnar Egils­son bæjar­full­trúi, sem situr í kjör­dæmis­ráðinu, lagði til­löguna fram en hann er afar ó­sáttur með fram­göngu ýmissa á fundinum, meðal annars for­manns kjör­nefndarinnar, Hall­dóru Berg­ljótar Jóns­dóttur.

Fannst listinn sterkari með Páli

Efstu sex sætin á listanum eru á­kveðin í próf­kjöri en 21 manna kjör­nefnd raðar síðan neðri sætunum upp og leggur til­lögu sína að lista fyrir kjör­dæmis­ráð sem verður að sam­þykkja listann. Í kjör­dæmis­ráðinu eru 108 með­limir.

Kjör­nefndin stillti Birni Bjarna­syni, fyrr­verandi ráð­herra og þing­manni flokksins fyrir Reyk­víkinga, upp í síðasta sætið, heiðurs­sætið. Margir furðuðu sig á því að Páll, sem er frá­farandi odd­viti flokksins í kjör­dæminu fengi ekki sætið.

Björn Bjarnason sat lengi á þingi fyrir Reykjavíkurkjördæmin.vísir/vilhelm

Á fundi kjör­dæmis­ráðs þar sem listinn var sam­þykktur lagði Gunnar Egils­son fram breytingar­til­lögu þar sem hann vildi skipta Birni út af listanum fyrir Pál.

„Ég hef alls ekkert á móti Birni Bjarna­syni, svo það sé á hreinu,“ segir Gunnar í sam­tali við Vísi. „Ég lagði bara fram þessa til­lögu með okkar fráfarandi odd­vita í heiðurs­sætið því ég taldi að listinn væri sterkari þannig.“

Segir framkomuna með ólíkindum

Hann hefur ekkert út á það að setja að ráðið hafi hafnað til­lögu hans – það sé lýð­ræðis­leg niður­staða sem hann sættir sig við. En það var fram­ganga Eyja­manna og formanns kjör­nefndarinnar, Hall­dóru Berg­ljótar, á fundinum sem Gunnari þykir ó­eðli­leg. Halldóra lagði fram frá­vísunar­til­lögu á breytingar­til­lögu hans, sem var felld á jöfnum at­kvæðum.

„Það er með ó­líkindum að for­maður kjör­nefndar leggi fram frá­vísunar­til­lögu á til­löguna mína. Mér finnst það ekki hennar hlut­verk að skipta sér af því. Ég lít svo á að það sé hlut­verk kjör­nefndarinnar að stilla upp listanum og leggja hann fram fyrir kjör­dæmis­ráðið og þar sé hlut­verki hennar lokið. For­maður hennar á ekki að reyna að koma í veg fyrir breytingar sem kjör­dæmis­ráðið gæti viljað á listanum,“ segir Gunnar.

Að­spurð segist Hall­dóra Berg­ljót ekki vilja bregðast við þessari gagn­rýni Gunnars. Spurð hvers vegna hún hafi lagt fram frá­vísunar­til­lögu á breytingar­til­lögu hans vill hún heldur ekki svara því.

Eftir að frávísunartillagan var felld var kosið um breytingartillögu Gunnars. Hún var þá felld með miklum meirihluta.

Eyjamenn neita ásökunum Gunnars

Gunnar segir full­trúa flokksins frá Vest­manna­eyjum á fundinum hafa mælt ein­dregið gegn til­lögunni og hrein­lega hótað að taka ekki þátt í kosninga­bar­áttu Sjálf­stæðis­flokksins fyrir þing­kosningarnar í haust ef hún yrði samþykkt.

„Þeir fóru bara hrein­lega fram með hótanir þarna. Hótuðu að opna ekki kosninga­skrif­stofu í Eyjum og vildu engan þátt taka ef Páll yrði í heiðurs­sætinu,“ segir Gunnar.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestamnnaeyjum, segir fullyrðingar Gunnars rangar. 

Hún tjáði sig um breytingar­til­löguna á fundinum: „Mig minnir að það sem ég hafi sagt hafi bara verið að þessi til­laga hafi komið mér á ó­vart. Að kjör­nefndin hafi komist að þessari niður­stöðu um lista og mér þætti ó­þarfi að vera að rengja störf kjör­nefndar.“

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.vísir/baldur

Þannig þið hótuðuð því ekki að opna ekki kosninga­skrif­stofu í Eyjum fyrir þing­kosningarnar ef Páll yrði á listanum?

„Nei, ég held að það verði svo­lítið erfitt fyrir hann [Gunnar] að finna aðila sem væru til­búnir að segja að ég eða ein­hver úr Vest­manna­eyjum höfum hótað því. Vest­mann­eyingar höfðu aldrei neitt slíkt í hyggju og kjörnir full­trúar Sjálf­stæðis­flokksins hefðu alltaf tryggt það besta fyrir flokkinn fyrir komandi kosningar.“

Hún segir það þá mikil von­brigði að Gunnar hafi lagt fram breytingar­til­löguna annars vegar og hins vegar að hann haldi þessu fram um Eyja­menn. „Fyrir mig per­sónu­lega þá finnst mér bara leitt að þessi til­laga hafi verið borin fram. Ég bara skil eigin­lega ekki alveg á hvaða veg­ferð hann er.“

Páll Magnús­son vildi ekkert tjá sig um málið þegar Vísir náði tali af honum: „Ég vil ekki vera að tjá mig um eitt­hvað sem fór fram á fundi sem ég var ekki við­staddur,“ segir hann. Að­spurður segist hann þó ekki hafa sóst eftir heiðurs­sætinu og telur frekar ó­lík­legt að hann hefði þegið boð um slíkt.

Ósættið hófst þegar flokkurinn klofnaði

Páll gaf upp­runa­lega kost á sér í fyrsta sæti í próf­­kjöri flokksins í vor áður en hann dró fram­­boð sitt nokkuð ó­­vænt til baka. Þá þver­tók hann fyrir að það hefði nokkuð með ytri að­­stæður í pólitíkinni að gera.

Sjá einnig: Gefur ekki kost á sér fyrir næstu kosningar.

Sjá einnig: Uppgjör við Pál Magnússon í Eyjum.

Ljóst er að Páll er ó­vin­sæll meðal stórs hóps í Suður­kjör­dæmi og má rekja þær ó­vin­sældir til þess þegar Sjálf­stæðis­flokkurinn í Vest­manna­eyjum klofnaði fyrir síðustu sveitar­stjórnar­kosningar, árið 2018. Þá gaf Páll það út að hann myndi ekki taka af­stöðu til kosninganna þar og þannig studdi hann ekki Sjálf­stæðis­flokkinn fyrir kosningarnar.

Í kjöl­farið lýsti full­trúa­ráð flokksins í Eyjum yfir van­trausti á Pál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×