Innlent

Brim hf. er sýkn af öllum kröfum slasaðs sjómanns

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Kristjánsson er aðaleigandi og forstjóri Brims hf.
Guðmundur Kristjánsson er aðaleigandi og forstjóri Brims hf.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp sýknudóm í máli sjómanns gegn Brimi hf. Sjómaðurinn höfðaði mál til greiðslu óskertra staðgengilslauna vegna vinnuslysa árið 2015 og 2016.

Brim hf. krafðist sýknu af kröfum sjómannsins á þeim forsendum að hann hafi fengið umframgreiðslu forfallalauna árið 2017. Þá taldi Brim einnig að krafa sjómannsins hafi verið niður fallin sökum tómlætis, en krafan kom fyrst fram 2019.

Samkvæmt dóminum voru málsatvik þau að sjómaðurinn slasaðist í sjóferð þann 10. desember árið 2015. Hann hlaut mikið mar á vinstri ökkla og og miðlægt yfir vinstra hné.

Sjómaðurinn hélt vinnu sinni áfram eftir slysið en ástand hans fór versnandi. Vinstra hné hans hafi ollið honum miklum verkjum og fór svo að sprauta þurfti hann með sterum í hnéð. Í samskiptum við lækni í lok maímánaðar greindi sjómaðurinn frá því að sprautan hefði gagnast en hægra hnéð hefði verið að versna þar sem hann hafi verið að hlífa því vinstra.

Í næstu veiðiferð rann sjómaðurinn á dekki og greindi frá eymslum á hægra hné. Hann væri þó vinnufær og kláraði túrinn. 

Eftir veiðiferðina leitaði sjómaðurinn til bæklunarlæknis og fór svo að framkvæmd var liðspeglunaraðgerð. Af þeim sökum var sjómaðurinn óvinnufær í rúma tvo mánuði.

Sjómaðurinn fór aftur á sjóinn í október 2016 og aftur í febrúar 2017. Það reyndist síðasta sjóferð hans sem sjómaður hjá Brim hf.

Rannsókn bæklunarlæknis leiddi í ljós að fyrra slys sjómannsins hafi leyst úr læðingi atburðarás þar sem snögg versnun hefði orðið á slitgigt í vinstra hné. Það sem áður hafi valdið vægum einkennum hefði vaxið svo að stefnandi væri orðinn óvinnufær. Myndrannsóknir hefðu sýnt mun meiri slitbreytingar í vinstra hnénu sem áður hefðu verið vægar. Af þessum sökum mætti þess vænta að stefnandi þyrfti gervilið í nálægri framtíð.

Hvað varðar seinna slys sjómannsins var mat læknis að það hafi ekki valdið varanlegu meini á hægra hné.

Rúmar fimm milljónir króna vegna uppsagnarfrests

Sjómaðurinn mun hafa sagt upp störfum í apríl 2017, enda ófær um að sinna starfi sínu. Hann fékk greidd laun sem nam helmingi aflahlutar netamanns í samræmi við skiptimannakerfi Brims hf. fram til 17. júlí 2017. Laun vegna apríl 2017 voru greidd sem frítúr en frá 4. maí til 17. júlí vegna uppsagnarfrests. Samtals námu launagreiðslur vegna uppsagnarfrestsins 5.213.056 krónum.

Niðurstaða dómsins var að sjómaðurinn hefði átt að fá fullan aflahlut netamanns samkvæmt kjarasamningi í tvo mánuði auk kauptryggingar í sjö daga þar sem forföll hans stóðu sjö dögum lengur, vegna tímabilsins 9. ágúst til 15. október 2016.

Fyrir liggur að Brim hf. greiddi hvorki hvorki laun í samræmi sjómannalög vegna forfalla hans vegna slyss 10. desember 2015 né í kjölfar aðgerðarinnar 9. ágúst 2016.

Þess í stað greiddi Brim hf. sjómanninum í hverjum mánuði, sem sjómaðurinn var forfallaður, sem nam helmingi aflahlutar netamanns í báðum tilvikum. Þær greiðslur voru í samræmi við skiptimannakerfi sem kveðið var á um í ráðningarsamningi sjómannsins.

Óumdeilt er að sjómaðurinn var orðinn varanlega óvinnufær til sjómannsstarfa í apríl 2017 og að hann hafði tæmt rétt sinn samkvæmt sjómannalögum til launa samkvæmt aflahlut á tímabili uppsagnarfrests en átti rétt til kauptryggingar. Brim hf. greiddi sjómanninum laun miðað við aflahlut en ekki kauptryggingu á tímabili uppsagnarfrestsins, án þess að hafa nokkra skyldu til þess.

Þrátt fyrir að Brim hf. hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt sjómannalögum til að greiða sjómanninum óskertan aflahlut er hann forfallaðist, 9. ágúst til 15. október 2016, hefur Brim hf. bætt honum það upp með greiðslu umfram skyldu á uppsagnarfresti. Er því engri ógreiddri fjárkröfu til að dreifa. Brim hf. er sýkn af öllum kröfum sjómannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×