Í sameiginlegri tilkynningu frá sambandi frumbyggjaþjóða í Saskatchewan og Cowessess frumbyggjaþjóðinni kemur fram að fjöldi grafa sem fannst við skólann sé sá mesti sem fundist hefur í Kanada. Fjölmiðlafundur um málið verður haldinn seinna í dag.
Perry Bellegarde, landshöfðingi sambands frumbyggjaþjóða, segir fundinn hörmulegan en ekki óvæntan. „Ég hvet alla Kanadamenn til að standa með frumbyggjaþjóðunum á þessum erfiðu og tilfinningaþrungnu tímum,“ segir hann á Twitter.
The news that hundreds of unmarked graves have been found in Cowessess First Nation is absolutely tragic, but not surprising.
— Perry Bellegarde (@perrybellegarde) June 23, 2021
I urge all Canadians to stand with First Nations in this extremely difficult and emotional time. https://t.co/8SHEevtk71
Börnum af frumbyggjaættum í Kanada var gert að sækja sérstaka heimavistarskóla á nítjándu öld og hluta tuttugustu aldar. Aðstæður í skólunum voru hræðilegar og börnin voru mörg hver beitt miklu ofbeldi. Talið er að allt að sex þúsund börn hafi látist í skólunum.
Á síðustu árum hafa ómerktar grafir og jafnvel fjöldagrafir fundist þar sem heimavistarskólarnir stóðu áður. Í síðasta mánuði fundust lík 215 barna í fjöldagröf við einn slíkan skóla í Bresku Kólumbíu.