Fótbolti

England sleppur við hin fimm bestu liðin

Sindri Sverrisson skrifar
Englendingar eiga fyrir höndum stórleik gegn Þjóðverjum á þriðjudaginn.
Englendingar eiga fyrir höndum stórleik gegn Þjóðverjum á þriðjudaginn. Getty/Mike Egerton

Ef England kemst í úrslitaleik EM mun liðið gera það án þess að þurfa að mæta neinu af hinum fimm bestu liðum Evrópu, samkvæmt styrkleikalista FIFA.

Sextán liða úrslit EM hefjast á morgun og leið hvers liðs fyrir sig að titlinum liggur nú að vissu leyti fyrir. Samkvæmt flestum veðbönkum og tölfræðiveitum eru Frakkar líklegastir til að landa titlinum en ljóst er að leið þeirra að titlinum er afar erfið og sumir telja Englendinga nú líklegasta.

Liðin sextán raðast þannig niður að Belgía, Frakkland, Portúgal, Spánn og Ítalía, sem eru fimm af sex bestu liðum Evrópu samkvæmt heimslistanum, eru meðal átta þjóða sem berjast um eitt sæti í úrslitaleiknum.

Svona er leið hvers liðs fyrir sig að Evrópumeistaratitlinum.

Á meðal hinna átta þjóðanna eru England og Þýskaland sem mætast í sannkölluðum stórleik á Wembley. England er þriðja sterkasta landslið Evrópu samkvæmt styrkleikalista FIFA, á eftir Belgíu og Frakklandi, en Þýskaland er í 8. sæti.

Sigurliðið í leik Englands og Þýskalands mætir svo sigurliðinu úr leik Svíþjóðar og Úkraínu, sem eru í 13. og 16. sæti yfir bestu landslið Evrópu. Komist Englendingar í undanúrslit mæta þeir þar Hollandi, Tékklandi, Wales eða Danmörku.

16-liða úrslitin:

Laugardagurinn 26. júní:

16.00 Wales - Danmörk

19.00 Ítalía - Austurríki

Sunnudagurinn 27. júní:

16.00 Holland - Tékkland

19.00 Belgía - Portúgal

Mánudagurinn 28. júní:

16.00 Króatía - Spánn

19.00 Frakkland - Sviss

Þriðjudagurinn 29. júní:

16.00 England - Þýskaland

19.00 Svíþjóð - Úkraína

Tölfræðiveitan Gracenote segir að Englendingar séu nú líklegastir til að landa titlinum. Það er ekki bara vegna þess að liðið losni við að mæta nokkrum af allra hæst skrifuðu liðunum heldur spilar England á heimavelli á þriðjudaginn auk þess sem undanúrslitin og úrslitin fara einnig fram á Wembley.

Líklegustu Evrópumeistararnir samkvæmt Gracenote.

Líklegustu úrslitaleikir EM samkvæmt Gracenote:

Líkur

Leikur

Líkur

Leikur

7.0%

Belgía - England

3.6%

Frakkland - Holland

5.9%

Frakkland - England

3.4%

Portúgal - England

5.2%

Ítalía - England

3.1%

Belgía - Danmörk

4.3%

Spánn - England

3.1%

Ítalía - Holland

4.2%

Belgía - Holland

2.9%

Belgía - Svíþjóð

Samkvæmt flestum veðbönkum eru Frakkar þó líklegastir til að verða Evrópumeistarar. Tölfræðiveitan Opta Sports telur 19,6% líkur á því að Hugo Lloris, fyrirliði Frakka, taki við Henri Delaunay verðlaunagripnum eftir úrslitaleikinn 11. júlí, líkt og á HM fyrir þremur árum. 

Belgar eru samkvæmt Opta næstlíklegastir til að landa titlinum og Spánverjar þriðju líklegastir. Opta telur aðeins 8,5% líkur á því að Englendingar vinni sinn fyrsta Evrópumeistaratitil.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×