Fótbolti

Svaf ekki í níu tíma eftir Póllandsleikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Morata og Enrique fallast í faðma.
Morata og Enrique fallast í faðma. Joaquin Corchero/Getty

Alvaro Morata, framherji Spánar, segir að hann hafi fengið morðhótanir eftir frammistöðu sínar með spænska landsliðinu á EM 2020.

Morata hefur ekki fundið sig í fremstu víglínu Spánar og í viðtali við Marca segir hann að honum hafi borist ógeðfelld skilaboð á samfélagsmiðlum.

„Ég svaf ekki í níu tíma eftir leikinn gegn Póllandi. Ég fékk hótanir, fjölskylda mín móðgun og fólk sem vonaðist eftir því að börnin mín myndu deyja. En ég er fínn,“ sagði Morata og hélt áfram:

„Kannski gerði ég ekki það sem ég var fenginn til þess að vinna. Ég skil gagnrýnina því ég hef ekki skorað nægilega mörg mörk en ég vildi óska þess að fólk myndi setja sig í mína stöðu, svo þau myndu skilja hvernig það er að fá hótanir og að börnin manns myndu deyja.“

„Í hvert skipti sem ég fer að sofa þá set ég símann í annað herbergi. Það sem hefur áhrif á mig er þegar fólk segir þessa hluti við konuna mína og börn. Þau segja þetta allt við þau,“ bætti Morata við.

Þeir spænsku lentu í öðru sæti riðilsins þrátt fyrir 5-0 sigur í lokaleiknum en þeir mæta Króatíu á Parken í Kaupmannahöfn á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×