Fótbolti

Þrenna í kveðjuleiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Álvaro Montejo kvaddi Þórsara með stæl.
Álvaro Montejo kvaddi Þórsara með stæl. MYND/THORSPORT.IS/PALLI JÓH

Þór frá Akureyri gerði góða ferð í Grafarvoginn þar sem Fjölnismenn tóku á móti þeim í Lengjudeild karla í dag. Álvaro Montejo skoraði öll mörk liðsins í 3-0 sigri, en þetta var kveðjuleikur Montejo fyrir Þór.

Þessi spænski framherji er á leið aftur til heimalandsins þar sem hann mun spila með Union Adarve á næstu leiktíð.

Montejo var ekki lengi að brjóta ísinn og var búinn að koma gestunum yfir eftir rétt tæpar sex mínútur. Hann fékk svo tækifæri til að tvöfalda forystu Þórsara eftir rúmlega tíu mínútna leik af vítapunktinum, en skot hans í stöngina.

Álvaro Montejo var þó ekki af baki dottinn því hann bætti upp fyrir vítaklúðrið eftir rúmlega hálftíma leik þegar hann batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn Þórsara og staðan orðin 2-0.

Þannig var staðan í hálfleik, en Montejo innsiglaði þrennu sína þegar tæplega þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Þórsarar lyfta sér upp í sjöunda sæti með tíu stig. Þetta var annar tapleikur Fjölnis í röð og þeir halda sér í fimmta sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×