Fótbolti

Gáfaðasti fótboltamaðurinn sem Roy Keane hefur séð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo svekkir sig í leikslok. Evrópumeistararnir duttu út í sextán liða úrslitunum.
Cristiano Ronaldo svekkir sig í leikslok. Evrópumeistararnir duttu út í sextán liða úrslitunum. EPA-EFE/HUGO DELGADO

Frábæru Evrópumóti Cristiano Ronaldo er lokið en hvorki hann né félagar hans fundu leið í markið á móti Belgum í gær.

Fyrirliðaband Cristiano Ronaldo fékk að finna fyrir því í leikslok eftir að Belgar slógu Portúgal út úr sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar og enduðu þar með magnað mót hjá Ronaldo.

Ronaldo var gagnrýndur fyrir að sparka fyrirliðbandinu frá sér þegar hann gekk af velli en starfsmaður portúgalska landsliðsins var fljótur að hirða það upp eftir hann. Ronaldo hafði áður rifið bandið af sér og hent því í grasið út á velli.

Ronaldo var auðvitað mjög svekktur eftir 1-0 tap en hann náði ekki að skora eins og hann hafði gert fimm sinnum í fyrstu þremur leikjunum. Hann gat kannski huggað sig örlítið við það að einn harðasti gagnrýnandi fótboltans fór lofsamlegum orðum um hann eftir leikinn.

Sá um ræðir er Roy Keane, fyrrverandi liðsfélagi Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.

„Hann er gáfaðasti fótboltamaður sem ég hef séð á minni ævi. Auðvitað man ég ekki eftir sjötta og sjöunda áratugnum en þessi gæi elskar að skora mörk,“ sagði Roy Keane á ITV sjónvarpsstöðinni.

Roy Keane var fyrirliði Manchester United liðsins þegar hinn átján ára gamli Cristiano Ronaldo var keyptur til félagsins sumarið 2003.

„Fótboltagreindin hans er stórkostleg og hvernig hann spilar leiknum. Hann er ekki mikið í því að byggja upp sóknirnar en hann hefur kænskuna og hrokann sem þú þarft frá frábærum leikmönnum,“ sagði Keane.

„Heilinn, gáfur mannsins, hann er algjör snillingur. Núna er hann búinn að gera þetta í mörgum löndum og svo er það hvernig hann hefur hugsað um skrokkinn sinn. Ég get ekki hrósað manninum nógu mikið en hann er afburðamaður og ég elska að horfa á hann spila. Heilinn sem hann hefur, hann er klárasti leikmaður sögunnar,“ sagði Roy Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×