Frá þessu greinir miðillinn Akureyri.net og segir næsta víst að tilkynnt verði um félagaskiptin síðar í dag.
Brynjar Ingi hefur verið eftirsóttur, ekki síst eftir mjög góða frammistöðu með íslenska landsliðinu í vináttulandsleikjum fyrir tæpum mánuði síðan og meðal annars mark gegn Pólverjum.
Í frétt Akureyri.net segir að Lecce hafi verið meðal fyrstu félaga til að sýna miðverðinum unga áhuga en að KA hafi reyndar líka samþykkt tilboð frá öðru félagi.
Lecce varð í 4. sæti ítölsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð og fór í umspil um sæti í A-deildinni en tapaði þar í undanúrslitum gegn Venezia, samtals 2-1.
Brynjar Ingi er 21 árs gamall en hefur slegið í gegn með KA á síðustu tveimur leiktíðum og á nú þegar að baki 39 leiki í efstu deild, og hefur skorað í þeim þrjú mörk.
Hann lék fyrstu þrjá A-landsleiki sína fyrr í sumar og skoraði fyrsta landsliðsmarkið sitt en á enga leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.