Íslenski boltinn

Sæ­var Atli skorað 73 prósent marka Leiknis í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sævar Atli í baráttunni með Leikni í sumar. 
Sævar Atli í baráttunni með Leikni í sumar.  Vísir/Hulda Margrét

Nýliðar Leiknis Reykjavíkur hafa komið verulega á óvart í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. Eftir sigur liðsins á Víkingum – sem voru taplausir fyrir leikinn - er liðið komið með 11 stig að loknum 10 leikjum og situr í 9. sæti.

Það sem meira er þá hefur Sævar Atli Magnússon, fyrirliði liðsins, farið á kostum það sem af er sumri. Hann er búinn að skora átta mörk á sínu fyrsta tímabili í efstu deild en aðeins Nikolaj Hansen hefur skorað meira. Daninn hefur níu sinnum þanið netmöskva Pepsi Max deildarinnar í sumar.

Sævar Atli hefur misst af einum leik í sumar og er því með átta mörk í níu leikjum. Það sem gerir það afrek enn magnaðra er að Leiknir R. hefur aðeins skorað 11 mörk í sumar. Sævar Atli hefur því skorað 73 prósent allra marka liðsins.

Þar með hefur hann blásið á þær sögur að vistaskipti hans eftir tímabilið myndu hafa áhrif en Sævar Atli samdi við Breiðablik í vor þar sem samningur hans við Leikni rennur út eftir tímabilið. 

Ef hann heldur áfram á sömu braut er ljóst að hann gæti haldið út í atvinnumennsku áður en hann nær að spila leik fyrir Breiðablik.

Öll mörk Sævars Atla Magnússonar fyrir Leikni það sem af er sumri má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Öll mörk Sævars Atla


Tengdar fréttir

„Sögðu okkur að vera graðari“

„Þetta var mjög mikilvægur sigur,“ sagði Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, eftir að liðið varð fyrst allra til að vinna Víking í sumar með 2-1 sigri í Breiðholti í kvöld, í 10. umferð Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta.

Tvítugur fyrirliði Efra-Breiðholtsins

Mikil ábyrgð er á herðum yngsta fyrirliðans í Pepsi Max-deild karla, hinum tvítuga Sævari Atla Magnússyni. Hann er ekki bara fyrirliði heldur mikilvægasti leikmaður Leiknis R. sem er kominn aftur í efstu deild eftir sex ára fjarveru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×