Viðskipti erlent

Helmingi minni sykur í Pepsí árið 2030

Kjartan Kjartansson skrifar
Við lok þessa áratugar gæti verið helmingi minni sykur í Pepsí en nú er.
Við lok þessa áratugar gæti verið helmingi minni sykur í Pepsí en nú er. Vísir/Getty

Gosdrykkjaframleiðandinn Pepsí ætlar að minnka verulega sykur sem bætt er í drykki fyrirtækisins sem eru seldir í ríkjum Evrópusambandsins á þessum áratug. Stefnan er að minnka sykurmagnið um fjórðung fyrir 2025 og um helming fyrir 2030.

Reuters-fréttastofan segir að PepsiCo ætli að breyta uppskriftum drykkja eins og Pepsí, 7Up og Lipton-ístes og skipta hluta sykursins út fyrir hitaeiningasnauð sætuefni. Þá ætlar fyrirtækið að auka framboð á heilsusamlegra snakki eins og poppkorni og kartöfluflögum.

Gosdrykkjaframleiðendur hafa verið undir þrýstingi um að minnka sykur í vörum sínum. Í Evrópu sérstaklega hafa mörg ríki komið á sykurskatti á sykraða gosdrykki, ávaxtasafa og bragðbætt sódavatn til að bregðast við heibrigðivanda og offitu.

Silviu Popovici, forstjóri PepsiCo í Evrópu, segir að nærri því einn af hverjum þremur drykkjum sem fyrirtækið selur í álfunni sé nú þegar sykurlaus. Fyrirtækið telji að sú þróun eigi eftir að halda áfram.

UNESDA, samband evrópskra gosdrykkjaframleiðenda, segjast ætla að draga úr sykurmagni í drykkjum um 10%. Þegar það næst mun sykurmagn í gosdrykkjum hafa minnkað um þriðjung á tveimur áratugum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×