Íslenski boltinn

Segja það frá­bært hjá Elínu Mettu að svara sófa­sér­fræðingunum inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen skoraði ekki í fjórum fyrstu leikjunum en hefur nú skorað í fjórum deildarleikjum í röð.
Elín Metta Jensen skoraði ekki í fjórum fyrstu leikjunum en hefur nú skorað í fjórum deildarleikjum í röð. Vísir/Elín Björg

Valskonan Elín Metta Jensen skoraði ekki í fyrstu fjórum deildarleikjum tímabilsins en er nú orðinn markahæst í Pepsi Max deild kvenna. Pepsi Max mörkin ræddu frammistöðu hennar að undanförnu.

Elín Metta skoraði þrennu í 4-0 sigri á Keflavík í síðustu umferð og hefur þar með skorað sjö mörk í síðustu fjórum leikjum sínum. Húm beið aftur á móti í 440 mínútur eftir fyrsta markinu sínu í sumar.

„Elín Metta vill nú meina að sófadýrin séu eitthvað að setja út á sig og megi það,“ sagði Helena Ólafsdóttir í upphafi umræðunnar um Elínu Mettu og þrennu hennar á móti Keflavík.

„Það er frábært að svara Sófasérfræðingunum en líka bara að svara á vellinum. Þetta var frábær þrenna hjá henni. Það er ekki eins og hún hafi ekki verið að skora af því að hún væri að nýta færin sín illa. Valsliðið hefur ekki verið að tikka,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Pepsi Max mörkunum.

„Með þessum mörkum þá kemur hún sér á toppinn í markaskori. Elínu Mettu líður ekkert illa með þetta,“ sagði Helena.

„Ég held hún sé búin að vera frekar róleg yfir þessu. Hún er ekkert að láta umtalið trufla sig,“ sagði Mist.

Það má sjá umfjöllunina um Elín Mettu og þrennuna hennar í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max Mörkin: Elín Metta og sófasérfræðingarnir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×