Lífið

Trúðu ekki sínum eigin Flamenco-augum á ferð um landið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hópurinn í sóttkví í Kjósinni eftir komuna til landsins. Þar var hægt að æfa á trépalli sem hentar vel fyrir Flamenco.
Hópurinn í sóttkví í Kjósinni eftir komuna til landsins. Þar var hægt að æfa á trépalli sem hentar vel fyrir Flamenco. Aðsend

Reynir Hauksson gítarleikari segir spænska vini sína ekki hafa trúað eigin augum á ferðalagi sínu hringinn í kringum landið. Reynir og spænsku vinirnir eru á ferðalagi um landið til að hafa áhrif á fólk með Flamenco tónlist og dansi.

Reynir er búsettur í Granada á Suður-Spáni og ætlaði að koma með sveitina til landsins í fyrra. Varla þarf að nefna hvers vegna það tókst ekki. Hann segir spænska vini sína hafa verið yfirspennta að láta verða af ævintýrinu í ár.

„Kauptu bara miða fyrir okkur aðra leið. Vertu ekkert að pæla í fluginu til baka,“ hefur Reynir eftir vinum sínum sem þurftu allir sem einn að fara í þrjú Covid-19 próf til að komast til landsins.

Hópurinn með hákarlaveiðimanni á Eskifirði.Aðsend

„Í örfá skipti hafa spænskir Flamenco listamenn komið til Íslands. En þetta er í fyrsta skipti sem þessi tegund tónlistar fer hringinn,“ segir Reynir.

Reynir spilar á gítar ásamt Jorge el Pisao, Jacób de Carmen syngur og Josué Heredia Cheito spilar á slagverk. Paco Fernández dansar en Flamenco er einstaklingsdans.

„Tónlistarflóran er rík á Íslandi en það er lítið um Flamenco. Fólk veit varla hvað þetta er. Svo mætir fólk á sýningarnar okkar og segist ekki hafa vitað að neitt þessu líkt væri til í veröldinni. Þetta er svo öðruvísi og hefur mikil áhrif á fólk að sjá dansinn.“

Hópurinn tróð upp á Græna hattinum á Akureyri.

Paco dansari er um leið slagverksleikari að sögn Reynis.

„Hann dansar á plötu og er að stappa niður takta. Platan er í raun pallur sem við létum smíða. Á Spáni þarf ekki danspall því þar eru öll sviðin úr timbri. Hér á landi eru öll svið útbúin fyrir rokktónleika, með dúk sem dempar hljóðið,“ segir Reynir. Það gangi ekki í Flamenco.

„Það er eins og að spila á gítar með vettlinga.

Hópurinn rúntaði um landið á níu manna VW Caravellu og hefur troðið upp á Græna hattinum á Akureyri, Valhöll á Eskifirði og í félagsheimilinu á Borgarfirði eystri.

Paco Fernández stillti sér upp við Jökulsárlón á seinni hluta hringferðarinnar.Aðsend

„Það búa 100 manns á Borgarfirði eystri og það mættu 100 manns á tónleikana. Húsfyllir,“ segir Reynir. Strákarnir í bandinu séu í skýjunum.

„Suður-Spánn er hálfgerð eyðimörk. Hérna er allt fullt af vatni. Dagurinn er allan daginn, það er engin nótt.“

Tónlistarmennirnir eru á launum hjá Reyni sem segist taka alla áhættuna af innflutningnum og tónleikaferðalaginu. Fram undan eru tónleikar í Gamla bíó í Reykjavík, Frystiklefanum Rifi, Hvanneyri Pub og Vestmannaeyjum. Þá er vel sótt dansnámskeið á Dansverkstæðinu á Hjarðarhaga í kvöld frá 18 til 21:30, tveir eins og hálfs tíma hópar.

„Mætingin þar kom mér á óvart. Þetta er í fyrsta skipit sem dansari er fluttur inn til að halda Flamenco dansnámskeið,“ segir Reynir. Setur þó þann fyrirvara að spænskt fólk búsett hér á landi hafi staðið fyrir námskeiðum.

Verkefni Reynis heitir Flamenco á Íslandi og fer nú fram í þriðja skiptið. Tilefnið er útgáfa fyrstu íslensku Flamenco hljómplötunnar sem Reynir gaf út í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×