Fótbolti

Cecilía Rán og Berg­lind Rós í liði um­ferðarinnar í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cecilía Rán og Berglind Rós í leik með Fylki gegn Breiðabliki. Þær spila nú saman hjá Örebro í Svíþjóð.
Cecilía Rán og Berglind Rós í leik með Fylki gegn Breiðabliki. Þær spila nú saman hjá Örebro í Svíþjóð. Vísir/Bára Dröfn

Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Berglind Rós Ásgeirsdóttir eru báðar í liði vikunnar í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hjá sænska miðlinum Aftonbladet. Þær sáu til þess að Örebro náði óvæntu stigi gegn toppliði Rosengård.

Örebro náði markalausu jafntefli gegn Glódísi Perlu Viggósdóttur og stöllum hennar í toppliði Rosengård. Örebro getur þakkað þeim Cecilíu Rán og Berglindi Ósk fyrir stigið. 

Markvörðurinn efnilegi átti frábæran leik og því kemur ekki á óvart að hún hafi verið í liði vikunnar.

„Þessi 17 ára gamli íslenski markmaður á framtíðina fyrir sér enda með ótrúlega hæfileika. Hún sýndi allar sínar bestu hliðar í leiknum og þegar Rosengård komst í gegnum vörn Örebro var Rúnarsdóttir í fantaformi þar á bakvið,“ segir í grein Aftonbladet um lið vikunnar.

„Var það taktísk snilld að færa Ágústsdóttur niður í miðvörðinn af miðjunni. Miðað við úrslitin í leiknum er svarið augljóslega já. Íslendingurinn sýndi að hún getur auðveldlega leyst stöðu varnarmanns miðað við spilamennsku hennar í leiknum. Hún var alltaf á réttum stað á réttum tíma,“ segir um frammistöðu Berglindar Rósar í leiknum.

Til að fullkomna frábæra varnarframmistöðu Örebro þá var hin 18 ára gamla Anna Sandberg, liðsfélagi Cecilíu og Berglindar, einnig í liði vikunnar.

Örebro er í 9. sæti deildarinnar með 11 stig að loknum 11 leikjum. Liðið er þó átta stigum fyrir ofan Vaxjö sem situr í 12. og eina fallsæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×