Erlent

Trump fer í mál við sam­fé­lags­miðlarisa

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Donald Trump hefur nú höfðað mál gegn Facebook, Twitter og YouTube.
Donald Trump hefur nú höfðað mál gegn Facebook, Twitter og YouTube. Getty/Chip Somodevilla

Fyrrverandi Bandaríkjaforsetinn Donald Trump hefur höfðað mál gegn samfélagsmiðlarisunum Facebook, Twitter og YouTube. Hann vill meina að brotið hafi verið á sér þegar hann var bannaður á miðlunum fyrr á árinu.

Það vakti heimsathygli þegar Twitter-aðgangi Trump var eytt í janúar. Þá var hann einnig bannaður á Facebook og YouTube. Þetta var í kjölfar innrásarinnar í þinghúsið í Washington, en Trump er talinn hafa egnt stuðningsmenn sína til ofbeldisverka á Twitter.

Trump vill að samfélagsmiðlar hætti að setja fólk á svarta lista og að bundinn verði endir á þöggun. Hann hefur farið fram á skaðabætur frá fyrirtækjunum þremur, ásamt því að endurheimta aðganga sína.

Trump sem var afar virkur á Twitter, brást við lokun aðgangsins með því að stofna sinn eigin miðil, „From the desk of Donald J. Trump“ eða Frá skrifborði Donald J. Trump. Miðillinn naut þó lítilla vinsælda og lokaði Trump miðlinum í síðasta mánuði.

Ólíklegt að Trump hafi betur

Fleiri stefnendur hafa gengið til liðs við Trump í málsókninni. Þeir halda því fram að fyrrnefndir samfélagsmiðlar hafi gerst sekir um að misbeita ritstjórnarvaldi sínu.

Bandaríski lagaprófessorinn Eric Goldman hefur rannsakað yfir sextíu sambærileg mál, þar sem einstaklingar hafa freistað þess að fara í mál við samfélagsmiðla vegna fjarlægingu efnis eða lokun aðganga. Hann telur afar ólíklegt að Trump og félagar vinni málið og telur málsóknina einungis vera örþrifaráð Trump til þess að fá athygli.

Engin tilkynning hefur komið frá Facebook, Twitter né YouTube vegna málsóknarinnar.


Tengdar fréttir

Face­book-að­gangur Trumps verður lokaður í tvö ár

Facebook hefur ákveðið að loka Facebook- og Instagram-aðgöngum Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í tvö ár. Aðgöngum hans á samfélagsmiðlunum var lokað í janúar vegna færslna sem hann birti um árásina á bandaríska þinghúsið.

Trump áfram í banni á Facebook

Eftirlitsnefnd Facebook staðfesti í dag bannið sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var settur í á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

Trump reiður yfir litlum vinsældum og lokar bloggsíðunni

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lokað bloggsíðu sinni sem hann opnaði í síðasta mánuði. Hann er sagður hafa verið fúll yfir litlum vinsældum bloggsíðunnar sem bar nafnið „From the desk of Donald J. Trump“, eða „frá skrifborði Donald J. Trump“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×