Erlent

Dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að hafa myrt ættingja vegna ímyndaðs fjársjóðs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Caouissin er sagður hafa orðið óður vegna fjársjóðsins, sem virðist vera hugarburður.
Caouissin er sagður hafa orðið óður vegna fjársjóðsins, sem virðist vera hugarburður.

Franskur maður sem myrti fjóra ættingja sína, þar af tvö börn, í leit að gullfjársjóði sem hann taldi þá hafa falið fyrir sér hefur verið dæmdur í 30 ára fangelsi.

Hubert Caouissin, 50 ára, játaði að hafa orðið mági sínum Pascal Troadec, 49 ára, og eiginkonu hans Brigitte, einnig 49 ára, að bana. Þá játaði hann einnig að hafa myrt börnin þeirra tvö; hinn 21 árs Sebastien og hina 18 ára Charlotte.

Caouissin var sannfærður um að Troadec og fjölskylda hans væru að fela gullstangir og -peninga; arf sem hann taldi hafa verið haldið frá eiginkonu sinni Lydie, systur Troadec.

Fram kom fyrir dómi að Caouissin taldi föður Lydie og Pascal hafa fundið fjársjóðinn í kjallara byggingar sem hann var að vinna að í borginni Brest árið 2006. Gullið væri partur af 50 kg fjársjóði sem franski seðlabankinn hefði falið fyrir nasistum á meðan hernáminu stóð.

Ekkert bendir til þess að fjársjóðurinn sé raunverulegur.

Caouissin hafði verið að njósna um Troadec-fjölskylduna þegar fjölskyldufaðirinn greip hann glóðvolgan við heimilið í febrúar 2017. Caouissin barði Troadec til bana og myrti síðan eiginkonu hans og börnin tvö. Börnin voru sofandi þegar Caouissin myrti þau.

Caouissin bútaði líkin í sundur, brenndi þau og gróf en lögregla gróf upp 379 líkamsparta á jörð morðingjans á Bretaníu. Eiginkona hans var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa aðstoðað mann sinn við að fela líkamsleifarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×