England komst í fyrsta úrslitaleik sinn í 55 ár, frá þeim á HM 1966, þar sem England vann 4-2 sigur á V-Þýskalandi í úrslitum mótsins á Wembley. Það gekk hins vegar ekki eins vel hjá enska liðinu á Wembley í kvöld.
Leikurinn fór 1-1 eftir bæði venjulegan leiktíma og framlengingu og þurfti því til vítaspyrnukeppni. Harry Kane skoraði þar úr fyrstu spyrnu Englendinga, sem og Harry Maguire úr annarri spyrnunni. Þá komu hins vegar klúður frá Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka sem urðu þess valdandi að Ítalía vann 3-2 í vítakeppninni og tryggðu sér þannig Evróputitilinn.
„Við ættum að vera stoltir sem hópur af því sem við afrekuðum,“ sagði Kane í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC.
„Þetta verður sárt það sem eftir lifir ferils okkar, en þannig er fótboltinn. Við erum allir sigurvegarar og viljum sigra.“ sagði Kane enn fremur.