Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr ó­væntum sigri ÍA, fyrstu mörk sumarsins á Greifa­velli, sigur­mark Lennon og  glæsimark Höskuldar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, skoraði glæsilegt mark gegn KR.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, skoraði glæsilegt mark gegn KR. Vísir/Hulda Margrét

Hér að neðan má sjá mörkin úr síðustu fjórum leikjum Pepsi Max deildar karla.

Á laugardag vann ÍA 2-1 sigur á Íslandsmeisturum Vals, í gær vann KA 2-0 sigur á HK í fyrsta leik sumarsins á Greifavelli á Akureyri. FH lagði Fylki 1-0 í leik sem bauð upp á hvert dauðafærið á fætur öðru en á sama tíma gerðu KR og Breiðablik 1-1 jafntefli í Vesturbæ Reykjavíkur.

Það verður að segjast að sigur botnliðs ÍA á Íslandsmeisturum Vals hafi verið einkar óvæntur en Valsmenn tróna á toppi deildarinnar um þessar mundir. Eftir markalausan fyrri hálfleik var Sebastian Hedlund fyrir því óláni að skora sjálfsmark er hann skallaði fyrirgjöf í eigið net snemma í síðari hálfleik.

Johannes Vall er svo skráður fyrir öðru marki Vals en skot að marki fór þá í hann og í netið. Staðan því 2-0 en leikmenn ÍA ekki enn búnir að koma tuðrunni í netið af eigin sjálfsdáðum. Kaj Leo í Bartalsstovu minnkaði muninn með glæsimarki en nær komust gestirnir ekki og lokatölur því 2-1 ÍA í vil.

Klippa: ÍA 2-1 Valur

KA tók á móti HK á Greifavelli en fram að leik gærdagsins höfðu heimamenn leikið á Dalvík. Ásgeir Sigurgeirsson kom KA yfir eftir tæpan hálftíma er hann kláraði vel úr þröngu færi. Varnarleikur HK í markinu var ekki til útflutnings. Daníel Hafsteinsson gerði út um leikinn með glæsilegu skoti snemma í síðari hálfleik.

Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur.

Klippa: KA 2-0 HK

Steven Lennon tryggði FH 1-0 sigur á Fylki þar sem bæði lið fengu frábær færi til að skora. Heimamenn í FH bókstaflega óðu í færum í fyrri hálfleik en tókst ekki að koma knettinum yfir línuna. Fylkir hefði svo getað tekið forystuna í síðari hálfleik en brást bogalistin.

Lennon braut svo ísinn og tryggði FH ómetanlegan 1-0 sigur.

Klippa: FH 1-0 Fylkir

Að lokum mættust KR og Breiðablik í Vesturbænum. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Kjartan Henry Finnbogason með skalla af stuttu færi í upphafi síðari hálfleiks. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, jafnaði metin með góðu skoti úr aukaspyrnu og staðan því jöfn 1-1 um miðbik hálfleiksins.

Fleiri urðu mörkin ekki og loks tókst Blikum að forðast tap gegn KR. Fyrir leikinn höfðu lærisveinar Rúnars Kristinssonar unnið sex leik í röð gegn þeim grænklæddu.

Klippa: KR 1-1 Breiðablik

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: FH - Fylkir 1-0| Fyrsti sigur FH í deildinni síðan 17. maí

FH unnu sinn fyrsta sigur síðan 17. maí. FH ingar fengu hvert dauðafærið á fætur öðru í fyrri hálfleik sem Aron Snær Friðriksson varði. Steven Lennon gerði fyrsta mark leiksins eftir tæplega 78 mínútna leik og mátti sjá að miklu fargi hafi verið létt af leikmönnum FH eftir að hafa farið illa með ansi mörg dauðafæri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×