Erlent

Sá fyrsti til að vera dæmdur fyrir á­rásina á þing­húsið

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Paul Allard Hodgkins við innrásina í sal öldungadeildar Bandaríkjaþings.
Paul Allard Hodgkins við innrásina í sal öldungadeildar Bandaríkjaþings. AP/Lögregla þinghússins

Karl­­maður frá Flórída­­fylki var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að hafa rutt sér leið inn í sal öldunga­­deildar Banda­­ríkja­þings þegar stað­­festa átti niður­­­stöður for­­seta­­kosninganna í byrjun þessa árs. Hann er sá fyrsti til að hljóta dóm fyrir glæp í tengslum við á­­rásina á þing­húsið.

Sak­­sóknarar höfðu farið fram á á­tján mánaða fangelsis­­dóm yfir Paul Allard Hodg­kins, sem ruddist inn í þing­salinn á­­samt fleirum, með fána Donalds Trump á lofti. Hann var sakaður um að hafa ógnað banda­rísku lýð­ræði.

Paul Allard er 38 ára gamall krana­verka­maður. Hann lýsti yfir sekt sinni í síðasta mánuði fyrir að reyna að koma í veg fyrir opin­bera at­höfn en hann var ekki sakaður um að ráðast á neinn eða valda skemmdum.

Dómarinn sem kvaddi upp dóminn yfir Paul Allard í dag sagði hann hafa spilað stórt hlut­­verk í einu versta at­viki í sögu Banda­­ríkjanna.

„Þetta voru ekki mót­­mæli í nokkrum skilningi. Þetta var árás á lýð­ræðið,“ sagði dómarinn. „Hún skildi eftir sig blett sem mun sitja fastur á landinu í ára­raðir.“

Um 140 særðust í á­tökunum, þann 6. janúar síðast­liðinn. Einn var skotinn til bana og þrír aðrir létust eftir á­tökin.

Fleiri en fimm hundruð hafa verið á­kærðir vegna á­rásarinnar og má búast við að dómurinn í dag sé for­­dæmis­­gefandi fyrir mörg hinna málanna sem á eftir að dæma í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×