Rúm 4.500 sýni voru tekin á föstudaginn, sem gerir hann að einum allra stærsta sýnatökudegi Íslandssögunnar ef frá er talinn einn dagur síðasta haust. Daglega eru nú tekin um 3-4.000 sýni, aðallega meðal Íslendinga.
Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að álagið væri gríðarlegt.
„Það náttúrulega myndast langar raðir en þetta hægt og rólega fer inn. Við erum að reyna að bæta við starfsmönnum og það gengur, en það gengur hægt. Ég veit ekki hversu lengi við getum haldið út, ef við fáum ekki fleira starfsfólk, en við erum bara að vinna í því núna.“
Bakvarðasveitir heilbrigðisþjónustunnar hafa verið kallaðar út. Ferðamannasýnum er heldur að fækka en á móti verða einkennasýnin fleiri. Ferðamennirnir hafa þó skapað töluvert aukið álag hjá heilsugæslunni samanborið við aðrar bylgjur.
„Þetta er svo mikill fjöldi að ef þetta heldur áfram svona næstu vikurnar verður mikil þreyta. En ég á von á að þetta verði svona kúfur sem kemur og svo fer þetta niður aftur.“
Ingibjörg hvetur þá sem finna fyrir einkennum að bóka tíma og fara í sýnatöku. Greinist einhver í nærumhverfi fólks skal það bíða boðanna frá smitrakningarteyminu um næstu skref, en halda sig til hlés á meðan er.