Þegar flokkurinn hefur birt lista sína á Facebook hafa þeir hingað til vakið lítil viðbrögð – aðeins fengið nokkrar jákvæðar athugasemdir, hamingjuóskir og baráttukveðjur fyrir kosningarnar.
Það kvað við annan tón í gær þegar flokkurinn birti efstu sætin í Reykjavík suður því ásamt hinum hefðbundnu hamingjuóskum dyggra stuðningsmanna má finna afar harða gagnrýni á listann. Ljóst er af athugasemdunum að mörgum þykir Miðflokkurinn hér róa á heldur frjálslynd mið, með konu í oddvitasæti, samtals fjórar konur í efstu sex sætunum og tvær þeirra af erlendum uppruna.
„Nei takk kýs ekki saumaklúbb,“ skrifar einn stuðningsmaður flokksins til dæmis á Facebook.
Sama staða er uppi í Reykjavík norður hjá flokknum; fjórar konur í efstu sex sætunum og kona sem leiðir listann. Þegar sá listi var kynntur fyrr í mánuðinum vakti hann þó engan vegin eins mikil viðbrögð og listinn í suðri.
„Ekki hægt að kjósa flokk sem velur ekki hæfileika, heldur kyn. Sýnist þetta fólk ekki til stórræða, aldrei séð það áður,“ skrifar einn við færsluna.
Fyrir honum virðist listinn í Reykjavík suður vera dropinn sem fyllti mælinn:
„Það sama á við um aðra lista Miðflokks, allt óþekkt fólk nema formaðurinn sjálfur. Þarna skaut flokkurinn sig í fótinn, ef ekki hausinn!“
„Er þetta einhver nýr flokkur?“
Það er Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, sem leiðir listann í Reykjavík suður. Í öðru sætinu situr Danith Chan, gjaldkeri Miðflokksins í kraganum, en eiginmaður hennar, Sveinn Óskar Sigurðsson, er oddviti flokksins í Mosfellsbæ.
„Hahaha SDG [Sigmundur Davíð Gunnlaugsson] að reyna að breyta Miðflokknum í Kvennalistann til að eiga sjens í að ná inn manni/konu eftir að kannanir sýna að flokkurinn er að þurrkast út….“ skrifar einn við færsluna á Facebook.
Miðflokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar í borginni en hann náði aðeins inn einum manni á þing í Reykjavíkurkjördæmunum í síðustu kosningum, Þorsteini B. Sæmundssyni í suðri. Hann tapaði baráttunni um oddvitasæti fyrir komandi kosningar fyrir Fjólu Hrund í ráðgefandi oddvitakjöri flokksins í kjördæminu um helgina og er því á leið af þingi.
„Hendið út reynslumanni með kjörþokka, nei takk!“ skrifar einn stuðningsmaður flokksins á Facebook sem virðist sakna þingmannsins.
„Er þetta einhver nýr flokkur?“ spyr annar.
„Miðflokkurinn rær á gruggug mið, eins og hinir flokkarnir. Það veit ekki á neitt gott og óvíst með aflann,“ segir enn annar.
Segir sig úr flokknum
Listinn virðist þá einhverjum hreinlega tilefni til úrsagnar úr flokknum:
„Ekki erfitt val, mun segja mig úr flokknum á morgun!“ skrifar einn við færsluna.
Það er að minnsta kosti ljóst af umræðum við færsluna að margir sem hugðust kjósa flokkinn í kjördæminu hafa nú hætt við.
Hversu marga nýja stuðningsmenn listinn á svo eftir að draga til sín verður að koma í ljós á næstu vikum.