Okeke er ítalskur af nígerískum uppruna og kemur frá liðinu Rustavi í Georgíu. Hann samdi við georgíska liðið í janúar á þessu ári en mun nú koma til Íslands til að spila með Keflavíkurliðinu á komandi vetri.
Okeke lék áður með Oleggio Magic og Auxilium Torino í heimalandinu milli 2015 og 2018 áður en hann gaf kost á sér í nýliðavalið í NBA-deildinni í Bandaríkjunum árið 2019. Hann var hins vegar ekki valinn þar.
Hann lék engan körfubolta eftir að hann yfirgaf Torino árið 2018 allt þar til hann samdi við Rustavi í vetur vegna hjartavandamála. Hann fór í tvær aðgerðir í febrúar 2020 vegna þeirra og fékk tækifæri til að snúa aftur á völlinn tæpu ári síðar í Georgíu.
Okeke er 22 ára gamall, 202 sm að hæð og leikur sem framherji. Hann á fjölda unglingalandsleikja að baki fyrir Ítalíu og var hluti af U19 liði Ítala sem vann silfur á HM í Egyptalandi 2017.
Keflavík hlaut silfur á Íslandsmótinu í körfubolta í vor eftir tap fyrir Þór frá Þorlákshöfn í úrslitum.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.