Bandaríska liðið vann þá öruggan tuttugu stiga sigur á Evrópumeisturum Serba, 79-59, og er komið alla leið í úrslitaleik Ólympíuleikanna á sjöundu leikunum í röð.
MEDAL GAME BOUND
— WNBA (@WNBA) August 6, 2021
With a 79-59 win over Serbia, the U.S. Women's National Team will play for their 7th straight medal #Tokyo2020 #Basketball pic.twitter.com/0xv7f6BbS5
Reynsluboltarnir Diana Taurasi og Sue Bird hafa verið með í síðustu fjórum Ólympíumeistaraliðum Bandaríkjanna og er nú því bara einum sigri frá gulli á fimmtu leikunum í röð.
Báðar fengu þær gull um hálsinn í Aþenu 2004, í Peking 2008, í London 2012 og í Ríó 2016. Bird er fertug og Taurasi er 39 ára.
Aðeins ein bandarísk körfuboltakona hefur unnið fimm Ólympíugull en því náði Teresa Edwards á árunum 1984 til 2000. Hún vann þó ekki fimm gull í röð því bandaríska liðið fékk bara brons í Barcelona 1992.
Diana Taurasi and Sue Bird head to their 5th straight Olympic #basketball final. #USA
— Olympics (@Olympics) August 6, 2021
Legends. pic.twitter.com/xkbF580iKr
Bandarísku stelpurnar voru ekki alltof sannfærandi í byrjun mótsins en hafa spilað betur og betur með hverjum leik. Sigurinn í nótt var aldrei í hættu og nú bíða annað hvort Frakkland eða Japan í úrslitaleiknum.
Miðherjinn Brittney Griner var atkvæðamest í bandaríska liðinu með 15 stig og 12 fráköst, Breanna Stewart var með 12 stig og 10 fráköst og Chelsea Gray kom inn af bekknum með 14 stig.
Bird skoraði átta stig, gaf fjórar stoðsendingar og stal þremur boltum en Taurasi var stigalaus en með fjórar stoðsendingar á þrettán mínútum.
Enginn úr byrjunarliði Serba skoraði meira en sex stig í leiknum og byrjunarliðið var samtals með 17 stig og 28 prósent skotnýtingu.