Íslenski boltinn

Vestri vann annan leikinn í röð með 10 menn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vestramenn eru öflugir 10 gegn 11.
Vestramenn eru öflugir 10 gegn 11.

Tveimur leikjum er lokið í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld. Vestri vann 2-1 útisigur á Grindavík og Afturelding lagði Þór 2-0.

Grindavík var tveimur stigum á eftir Vestra fyrir leik kvöldsins og hafði ekki unnið síðustu fimm leiki sína. Vestramenn hafa verið á fínu skriði síðan að Jón Þór Hauksson tók við liðinu á dögunum og unnu magnaðan 4-3 sigur á Gróttu í síðustu umferð þrátt fyrir að ljúka leiknum með 10 menn gegn 11.

Vestramenn byrjuðu betur í kvöld og kom Pétur Bjarnason þeim í forystu eftir átta mínútna leik. Skömmu síðar, á 12. mínútu, varði Brenton Muhammed, markvörður Vestra, vítaspyrnu Sigurðar Bjarts Hallssonar til að viðhalda forystu Vestra.

1-0 stóð í hléi en staðan vænkaðist fyrir Grindavík þegar Diogo Coelho, leikmaður Vestra, fékk að líta rautt spjald tuttugu mínútum fyrir leikslok. Þeir nýttu sér liðsmuninn er Oddur Ingi Bjarnason, lánsmaður frá KR, jafnaði leikinn tólf mínútum síðar. Vestramenn gáfust þó ekki upp og tryggði Benedikt V. Warén gestunum 2-1 sigur með marki í uppbótartíma.

Aftur vann Vestri því sigur með aðeins tíu menn gegn ellefu og liðið er komið upp í 4. sæti með 25 stig, líkt og Kórdrengir sæti ofar, en þeir síðarnefndu eiga tvo leiki inni á Vestra. Grindavík er með 20 stig í sjöunda sæti.

Stigi á eftir Grindavík eru bæði Afturelding og Þór. Þau eru bæði með 19 stig eftir sigur Mosfellinga á Akureyringum í kvöld. Arnór Gauti Ragnarsson og Elmar Kári Enesson Cogic skoruðu mörk Aftureldingar í 2-0 heimasigri þeirra á Þór í kvöld.

Liðin eru sjö stigum frá Selfossi sem er í tíunda sæti, og níu stigum frá Þrótti sem er í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×