Eftir sigur í fyrstu sex leikjum tímabilsins mistókst Vålerenga að vinna síðustu þrjá leiki sína, sem allir voru gegn liðunum sem eru ásamt þeim í toppbaráttunni. Vålerenga er ríkjandi meistari eftir að Ingibjörg og stöllur hennar unnu fyrsta Noregstitilinn í sögu liðsins í fyrra.
Töp gegn toppliðunum Rosenborg og Sandviken og jafntefli við Lilleström þýddu hins vegar að liðið þurfti að komast aftur á sigurbraut í dag. Hlé hefur verið á deildinni vegna Ólympíuleikanna en Vålerenga vann síðast leik gegn Stabæk 30. júní síðastliðinn.
Kolbotn var mótherji dagsins en liðið var fyrir leikinn í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig, tíu stigum á eftir Vålerenga sem var í þriðja sæti. Erfiðlega gekk framan af fyrir heimakonur að brjóta ísinn en Katie Stengel kom Vålerenga 1-0 yfir á 40. Mínútu og annað mark frá Janni Thomsen fylgdi þremur mínútum síðar. Synne Jansen innsiglaði svo 3-0 sigur liðsins snemma í síðari hálfleik.
Vålerenga er þá með 22 stig í 3. sætinu, jafnt Lilleström að stigum sem vann 4-3 útisigur á Arna-Björnar. Sandviken er í efsta sæti með 29 stig eftir dramatískan 2-1 sigur á Lyn. Rosenborg vann 5-2 útisigur á Stabæk og er með 28 stig í öðru sæti.