Leikarinn Jón Gnarr er einn af þeim fjölmörgu sem komu með til landsins nú síðdegis og birtir hann myndskeið af mikilli örtröð í komusalnum. Sjá má að lítið bil er á milli manna þó flestir ef ekki allir séu með grímur.
„það má alls ekki þjóðhátíð en þetta er í lagi? engin smithætta hér, “skrifar Jón á kaldhæðin hátt með myndbandinu sem sjá má hér að neðan.
Birtir hann einnig mynd þar sem sjá töluverðan fjölda fólks í einni kös. Segir Jón að engin röð og regla sé fyrir hendi.
Þetta er ekki fyrsta fréttin sem sögð er af örtröð á Keflavíkurflugvelli undanfarna daga. Við komuna til landsins þarf að framvísa bólusetningarvottorði eða fara í sýnatöku. Örtröðin myndast þar sem flestir sem hingað koma til lands eru bólusettir og tíma tekur að fara yfir vottorðin.
Þá virðist einnig lítið vera hægt að gera til að bregðast við þessu ástandi ef marka má orð Sigurgeirs Sigmundssonar, yfirlögregluþjóns á Keflavíkurflugvelli í samtali við mbl.is á dögunum.
Þar kom fram að farþegafjöldinn í komusalnum væri einfaldlega of mikill miðað við þá afkastagetu sem er fyrir hendi. Búið sé að fjölga skoðunarstöðvum bólusetningarbottorð í átján, og ekki sé hægt að koma fleiri fyrir. Segist hann skilja vel áhyggjur fólks en aðstaðan sem er fyrir hendi bjóði einfaldlega ekki upp á annað en það sem er nú í boði.