Franskur hlaupari hefur fengið á sig mikla gagnrýni fyrir framkomu sína í úrslitum maraþonhlaupsins á Ólympíuleikunum í Tókýó. Maraþonhlaupið var eitt af síðustu greinum leikanna sem lauk í gær.
Það var mikill hiti og raki þegar maraþonhlaupið fór fram og hlaupararnir þurftu því að passa sig að nýta sér drykkjarstöðvarnar.
Hinn franski Morhad Amdouni, sem endaði í sautjánda sæti í maraþonhlaupinu, virtist hafa ætlað að búa sér til smá forskot á aðra keppendur með því að gera þeim erfitt fyrir að fá vatn á einni drykkjarstöðinni.
Þegar Morhad kom að einni drykkjarstöðinni þá henti hann heilli röð af vatnsflöskunum í jörðina eða öllum nema einni. Hann tók hana sjálfsögðu sjálfur og hélt svo áfram.
Ástralski langhlauparinn Ben St Lawrence vakti athygli á þessari óíþróttamannslegu framkomu í færslu á Twitter sem má sjá hér fyrir neðan.
Piers Morgan var líka tilbúinn að afhenda Frakkanum titilinn „mesta fíflið“ á Ólympíuleikunum en aðrir hafa komið Frakkanum til varnar og sagt að þetta hafi verið slys.
Það er í það minnsta ljóst að margir keppendur misstu þarna af tækifærinu til að fá vatn og svo fór að 31 af 105 keppendum náði ekki að klára hlaupið.
Þarna er hitanum og rakanum um að kenna en ekki „klaufaskap“ Morhad Amdouni. Það var líka önnur drykkjarstöð rétt hjá og það eru ekki til myndir af Amdouni að fella flöskurnar þar.